135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:19]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fjárveitingar mætti skilja þetta svo að fjármagn hafi ekkert verið aukið á milli ára. Það er einmitt þannig að menn hafa verið að reyna að sjá fyrir hver þörfin er. (Gripið fram í.) Já, og síðan hefur komið í ljós að það hefur ekki dugað, áætlanir hafa ekki staðist. Ýmislegt hefur valdið því. Sjúkratryggingastofnunin er einmitt tæki til að reyna að ná tökum á þessu. Til þess er verið að setja lög um sjúkratryggingastofnun, þ.e. til að fá tæki til að vinna betur áætlanagerðina, til að undirbúa mál betur og til að ná betri stjórn á því hvernig unnið er að heilbrigðismálum. Hafi menn önnur og betri tæki væri ágætt að heyra um það hér. En þetta er alla vega það sem ég hef fallist á að sé áhugaverð og mjög athyglisverð leið sem ég vil gjarnan að reynd verði.

Varðandi einkaaðila er svarið mjög einfalt. Það er auðvitað aldrei hugmyndin að viðkomandi kaupi þjónustu af einkaaðila sem er dýrari en hjá ríkinu. Menn geta togast á um það hvernig þetta er reiknað. Við höfum heyrt umræðuna, menn segja að stjórnunarkostnaður aukist. Þetta er eins og er í almennri verktöku, menn ræða um verkið og þegar unnin er mikil hönnun og undirbúningur og vinna við útboðsgögn þá eykst kostnaðurinn en venjulega reikna menn með því að vinna hann til baka í útboðsverkinu og með betra skipulagi á því sem þar er framkvæmt. Það er enginn eðlismunur á því. En það er mjög mikilvægt að halda því til haga að það er ekki verið að tala um að bjóða út alla heilbrigðisþjónustuna og færa hana yfir til einkaaðila, þetta er jafnmikið innan kerfisins. Ég held að menn verði að átta sig á því líka að það er gríðarlega mikilvægt, og það hefur margoft komið fram í tengslum við þetta frumvarp, að menn hafi hér grunnþjónustu því að menn geta ekki tekið heilu málaflokkana og fært þá út. Við erum alltaf að tala um einhverja „marginala“ til að leysa biðlista eða til að leysa ákveðin tiltekin vandamál. Menn færa ekki heilu málaflokkana yfir til einkaaðila vitandi það að færu viðkomandi aðilar á hausinn stæði ríkið uppi þjónustulaust á því sviði. Ég held að menn séu fyllilega meðvitaðir um þetta.