135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:21]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef sá hefði verið eini tilgangurinn með því að setja sjúkratryggingastofnun á laggirnar að leiðrétta þessar fjárveitingar og ganga skipulegar til verks í samningamálum þá hefði verið einfalt að efla þann þátt í starfi Tryggingastofnunar ríkisins.

Það sem hér er um að ræða er allt annars eðlis. Það er verið að skipta heilbrigðisþjónustunni upp eins og margoft hefur verið bent á í dag, annars vegar í kaupendur og hins vegar í seljendur. Svo tala menn um samkeppni og valfrelsi og hvað þetta allt saman heitir. En það hentar auðvitað ekki Samfylkingunni nú um stundir að viðurkenna að þetta sé annað og meira en bókhaldslegt atriði.

Ég vek athygli á því að hv. þingmaður segir að það sé aldrei meiningin að borga meira fyrir einkaþjónustuna jafnvel þó að kosta þurfi heilmiklu til í útboð á báða bóga og ráðgjafageirinn fitni eins og púkinn á fjósbitanum. Staðreyndin er sú að þau dæmi sem hafa verið uppi á borðum í fjölmiðlum undanfarnar vikur, bara þann tíma sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið í sínu ráðuneyti frá því þessi ríkisstjórn var mynduð, eru orðin nokkuð mörg og í öllum tilfellum hefur verið samið við einkaaðila og ríkið látið greiða meira en áður var gert fyrir sömu þjónustu. Þetta er auðvitað það sem við meinum þegar við erum að tala um einkavinavæðingu versus einkavæðingu.

Það vakti líka athygli mína í orðum hv. þingmanns að hann talaði um þetta sem tilraun og hann er annar þingmaður Samfylkingarinnar sem talar hér um kjark og þor þess flokks. (Forseti hringir.) Ég vona að þeir eigi ekki eftir að iðrast mjög mikið þessarar afstöðu en ég reikna þó með að svo verði.