135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:48]
Hlusta

Alma Lísa Jóhannsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í nefndaráliti minni hlutans er meginefni þessa frumvarps ný lög um sjúkratryggingar og byggjast þau á yfirlýstri stefnu ríkisstjórnar um að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Markmið laganna er að fjölga útboðum og rekstrarformum og koma á fyrirkomulagi kaups og sölu í heilbrigðisþjónustu þar sem fjármagn fylgir sjúklingi. Þessu fylgir að kostnaðargreina skuli einstaka þætti heilbrigðisþjónustu eins og reyndar nú þegar er gert innan félagslegu heilbrigðisþjónustunnar.

Frumvarpið byggir á þeirri grunnstefnu ríkisstjórnarinnar að fari fram samningar og viðskipti á milli kaupenda og seljenda heilbrigðisþjónustu. Í umræðum um heilbrigðismál hefur hæstv. heilbrigðisráðherra talað mikið um að þær breytingar sem til stendur að gera hafi í för með sér aukna þjónustu, aukin gæði og þá meiri hagkvæmni, að við fáum með þessu aukið valfrelsi og meira fyrir peninginn.

En standast þessar staðhæfingar? Er þetta rétt? Já. Þessar staðhæfingar eru vissulega réttar samkvæmt trúar- og kennisetningum nýfrjálshyggjunnar. Hugmyndafræði einkavæðingar sem er af mörgum hverjum talin vera hin eiginlega bókstafstrú samtímans. En er þetta rétt ef tekið er mið af reynslu þjóðanna? Sannar fengin reynsla að markaðsvæðing heilbrigðisþjónustunnar sé hagkvæmari og að hin svokölluðu fjölbreyttu rekstrarform skili skattborgurum betri og ódýrari þjónustu? Hið stutta svar er einfalt: Nei, reynslan sannar ekkert slíkt.

Reynslan kennir okkur þvert á móti að stíga afar varlega til jarðar í þessum efnum og fórna ekki því sem byggt hefur verið upp í gegnum áratugina. Staðreyndin er sú að markaðsfyrirkomulag í heilbrigðisþjónustu fylgir óhagkvæmni. Hún er með öðrum orðum dýrari fyrir skattborgarana. Hafa stjórnvöld gert ráð fyrir stjórnunar- og umsýslukostnaði? Kostnaði af markaðssetningu og reikningagerð? Heill iðnaður vex upp í kringum slíkt eins og dæmin sanna og dregur til sín drjúgt fjármagn.

Önnur tegund útgjalda sem þekkist ekki í opinberu kerfi eru arðgreiðslur til hluthafa. Fyrir hverja krónu sem er greidd til hluthafa minnkar upphæðin sem fer í sjálfa heilbrigðisþjónustuna. Hvar ætli láti þá undan? Ekki eru meiri peningar í kerfinu og þá hljóta þeir að koma í jafnri þjónustu til landsmanna annars vegar og í greiðslu til starfsmanna.

Lykilspurningin sem við stöndum frammi fyrir núna er hvort við viljum veikja veigamikil samfélagviðfangsefni eins og menntun og heilbrigðisþjónustu. Hingað til höfum við valið að standa sameiginlega að heilbrigðisþjónustunni. Viljum við víkja frá þeirri stefnu?

Í 39. gr. frumvarpsins er lagt til að ekki megi gera samninga við stéttarfélög eða fagfélög á sviði heilbrigðisþjónustu eins og tíðkast hefur á undanförnum árum. Ég geri mjög alvarlegar athugasemdir við þennan lið og hafa einnig komið fram athugasemdir í umsögnum um frumvarpið þar sem tekið er fram að hér virðist verið að gera atlögu að félögum heilbrigðisstétta, brjóta niður samstöðu þeirra og gera að engu uppbyggingu félagsstarfs og fagmennsku innan þeirra. Ég tek undir þessa athugasemd af heilum hug og undirstrika mikilvægi fagfélaga og stéttarfélaga og aðkomu þeirra að samningum.

Fram hefur komið að starfsmenn hafa ekki grætt á því að þurfa að gera samninga sem einstaklingar við einkarekin félög í heilbrigðisþjónustu þegar stéttarfélög hafa ekki aðild að samningum þeim til stuðnings.

Í umræðunni hér á undan hafa einnig komið fram sjónarmið frá hv. þingmönnum Samfylkingar sem gera það að verkum að áhyggjur mínar af þessari grein eru ekki af engu komnar. Fram kom í orðum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar hér áðan að eitt af markmiðum þess að setja þetta inn í frumvarpið væri að tryggja sig gegn samráði. Ég velti þá fyrir mér samráði starfsmanna sín á milli. Mér finnst þetta mjög sérstakt. Hvert er markmið stéttarfélaga?

Á undanförnum missirum hefur ýmsum þáttum innan Landspítalans – háskólasjúkrahúss verið úthýst. Yfirlýstur tilgangur með þessu er að ná niður útgjöldum. Rök eins og þau að í þessu felist tækifæri fyrir starfsfólk eru notuð. En á sama tíma er það mjög skýrt að ekki eru meiri peningar í pottinum. Hvaða tækifæri felast í því fyrir ljósmæður ef ríkið borgar þeim einfaldlega sanngjarnari laun? Felast ef til vill tækifæri í því?

Vissulega verður maður hugsi yfir þeim kafla nefndarálits 1. minni hluta sem nefnist Reynsla Íslendinga af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hefur þingheimur kynnt sér það til hlítar? Af hverju í ósköpunum hefur þingheimur ekki enn orðið við þeirri beiðni að reynsla Íslendinga af þessum málum sé einmitt rannsökuð til hlítar á faglegan og yfirgripsmikinn hátt? Er það ekki allra hagur að reynsla, þekking, rannsóknir og faglegt mat liggi til grundvallar svo stórum breytingum á heilbrigðisþjónustu Íslendinga?

Reynsla annarra landa hefur sannarlega sýnt okkur að það eru tvær hliðar á þessum málum öllum. Í því samhengi má m.a. nefna nefnd sem hefur starfað á vegum þingsins í Bretlandi, rannsóknarnefnd um heilbrigðismál. Ég fann engar vísbendingar um að rétt væri að einkarekstur væri skattborgurum ódýrari. Þvert á móti lýsti nefndin áhyggjum sínum yfir því að fé væri fært úr opinberum geira til þess að styðja nýjan einkarekstur. Slíkt væri ekki einungis tilfærsla fjármagns sem orkar tvímælis heldur hefði í för með sér ótryggari þjónustu og nýja kostnaðarliði.

Í ábendingum nefndarinnar fólust einnig áhyggjur af því að einkageirinn veldi sér heilsuhraustari viðskiptavini og arðvænlegar aðgerðir. Úr hinum opinbera geira færi fé til einkageirans. Eftir sæti minna til skiptanna innan opinbera kerfisins en samt sem áður sæti hann uppi með áhættumiklar og óarðbærar aðgerðir og sjúklinga og áframhaldandi álag.

Einnig benti nefndin á ábyrgð opinberra sjúkrahúsa á kennslu en slíkt hefur afleiðingar á þjálfun og menntun starfsfólks. Ofan á þetta allt saman átti nefndin sem rannsakaði heilbrigðismálin í Bretlandi í mesta basli við að fá gögn vegna viðskiptaleyndar þar sem ríkti á gögnum um ráðstöfun fjármuna og reikningsaðferðir. Það er því verið að endurskilgreina almannasviðið sem einkasvið og reisa múra um einkareksturinn. Þetta felur í sér ójafnan aðgang að upplýsingum í skjóli viðskiptaleyndar og upplýsingalaga. Einkageirinn lýtur arðsemiskröfum og nýtur leyndar en makar krókinn af fé og heilsu skattborgara. Er slíkt merki um heilbrigt samfélag?

Á undanförnum árum hefur kostnaðarþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu aukist. Komugjöld eru einn liður í að færa útgjöldin yfir á almenning og eru þetta ekkert annað en duldir skattar sem Sjálfstæðisflokkurinn færir yfir á okkur á meðan lækkaður hefur verið skattur á stórfyrirtæki og fjármagnseigendur. Þetta er nú jafnræðið.

Einstaka læknastéttir hafa sagt upp samningi við Tryggingastofnun og starfa nú algjörlega á einkaforsendum án tengsla við sjúkra- og almannatryggingar. Þar ríkir frjáls verðlagning og endurgreiðsla á þjónustu sem þau veita óháð hvað hún kostar. Þetta á einnig við um talmeinafræðinga og við þekkjum samsetningu af verðlagningu tannlækna þar sem kostnaður almennings getur verið ansi mikill eftir álagningu tannlækna. Þessi aukni kostnaður á almenning getur leitt til færri heimsókna til þjónustuaðila. Þetta getur leitt til ójafnaðar í aðgengi að þjónustu og þannig grafið undan þeirri heilbrigðisþjónustu sem við höfum notið þar sem haft er að leiðarljósi að allir séu jafnir.

Frumvarpið veitir einnig heimild til gjaldtöku fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa sem veitt er án þess að um innlögn sé að ræða og velti ég fyrir mér hvort þetta muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sjúklinga sem gætu verið kallaðir inn til rannsókna sem er nauðsynleg forsenda fyrir til að mynda uppskurði án innlagnar og þannig verður kostnaðurinn færður yfir á sjúkling.

Fram hefur komið í ræðum Samfylkingarinnar að þeir vilji láta markaðslögmálin vinna í þágu markmiða jafnaðarstefnunnar. Er það tilvikið þegar kostnaði við þjónustuna er velt yfir á notandann?

Hágæðaheilbrigðisþjónusta sem kostar Bandaríkjamenn 14% af þjóðarframleiðslu í markaðsumhverfi kostar aðeins 7–9% af þjóðarframleiðslu í ríkjum þar sem kerfið er opinbert og landsmenn sitja við sama borð. Einkavædd heilbrigðisþjónusta sem lýtur lögmálum markaðarins hefur þá tilhneigingu til að þenjast út eins og fram hefur komið hér í ræðum fyrr í kvöld og heildarútgjöld heilbrigðisþjónustu spennast einnig út í einkaframkvæmd á henni þar sem þar skapast offramboð á einstaka svæðum og umfram allt á vel efnuðum svæðum stórborga. Þetta hefur verið sannreynt.

Vaxandi einkafjármögnun eykur greiðslubyrði þeirra mest sem búa við lökust kjör og þurfa mesta þjónustu. Einkafjármögnun heilbrigðisþjónustunnar í gegnum komugjöld í opinbera kerfinu er að markaðsvæða einkavædda þjónustu byggir á allt öðrum forsendum en hin samábyrga hugsun sem við höfum búið við þar sem hugmyndafræðin gengur út á að við greiðum öll sameiginlega úr skattsjóðum okkar.

Í annars konar fyrirkomulagi greiða þeir mest sem mest þurfa á þjónustunni að halda, svo sem láglaunafólk, börn, aldraðir, heilsuveilir, sjúkir. Þetta þýðir að frískir greiði minna, vinnufærir greiði minna en aldraðir og heilsuveilir greiði meira. Karlar greiði minna en konur meira. Hátekjufólk greiðir minna en lágtekjufólk meira. Viljum við virkilega halda þá leið? Hér er um að ræða alvarlega tilfærslu á greiðslubyrði milli ólíkra þjóðfélagshópa í öfuga átt. Samt sem áður tala menn um samábyrga heilbrigðisþjónustu.

Könnun sænsku félagsþjónustunnar frá 2002 sýnir að 15% þeirra sem lifa undir viðmiðunarmörkum félagsaðstoðar segjast ekki hafa efni á að leita sér læknis vegna kostnaðar. Allt að 50% hafa ekki efni á að fara til tannlæknis. Þetta vekur spurningar um hvort þetta samræmist því leiðarljósi sem við höfum um aðgengi fyrir alla að heilbrigðisþjónustu. Auknum kröfum um að auka heilbrigðisþjónustu verður ekki mætt með hagræðingu og breyttum rekstrarformum. Vandamálið snýr að því að á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum eru settar fjárhagslegar skorður í ósamræmi við skyldur. Það verður ekki leyft innan einkaframtaksins heldur án þess að skerða þjónustu þar sem eru meiri kröfur um framleiðni, sem sé meiri vinna fyrir lægri laun.

Ljóst er að Íslendingar eins og aðrar þjóðir munu óska eftir aukinni þjónustu á næstu árum og það felur í sér aukinn kostnað. Spurningin er: Hvernig ætlum við sem þjóð að leysa það? Það þarf að fara fram grundvallarumræða um grunnþjónustu. Á hún að vera á grundvelli samhjálpar? Þetta er í sjálfu sér efnahagsumræða vegna þess að við megum ekki gleyma því að heilbrigði landsmanna á sterkan þátt í hagvexti þjóðarinnar.

Einnig er ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar. Reynsla annarra landa hefur sýnt að landsbyggðin situr eftir við markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu. Dreifbýlið býr yfir læknaskorti. Sameining til hagræðingar verður á dreifbýlum svæðum og líklegt er að markaðsvædd þjónusta verði einungis þar sem arðbært er að setjast að. Og hvað gerist þá á landsbyggðinni?

Það eru vaxandi deilur í Svíþjóð um stefnumótun í heilbrigðisþjónustu. Reynsla Breta af markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins er mjög umdeild. Nýsjálendingar hafa eyðilagt hið samábyrga heilbrigðiskerfi og meira að segja Bandaríkjamenn eru farnir að lýsa yfir efasemdum um sitt kerfi. Engu að síður stefnum við Íslendingar á braut markaðsvæðingar og grunnþjónustu.

Hæstv. forseti. Ég hvet þingmenn alla til að kynna sér þessi mál af kostgæfni og axla þá ábyrgð sem þeim er falin. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það að meiri hluti þingmanna vilji halda í þessa vegferð með íslenska heilbrigðiskerfið, þá vegferð sem viðurkenndir sérfræðingar vara við, vegferð einkavæðingar, mismununar og óhagkvæmra fjárútláta eins og dæmin sanna. Mig langar að minna á að við erum ekki sterkari en veikasti hlekkurinn eða ríkari en fátækasta barnið. Við skulum ekki gleyma. því.