135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í dag höfum við rætt frumvarp til laga um svokallaðar sjúkratryggingar sem fela í sér kerfisbreytingu á íslenskri heilbrigðisþjónustu. Reyndar má segja að hún hafi að hluta til fengið stoð í lögum um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru hér á Alþingi fyrir örfáum árum síðan, árið 2002 eða 2003 minnir mig, eða 2005. Þar voru samþykktar allvíðtækar heimildir fyrir ráðherra til að haga fyrirkomulagi heilbrigðisþjónustunnar eftir sinni vild.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vorum andvíg þeim breytingum sem það frumvarp fól í sér og nú er haldið áfram.

Vert er að huga að því sem áður hefur verið sagt í þessari umræðu. Það skiptir máli hver heldur á málunum og nú heldur Sjálfstæðisflokkurinn á heilbrigðismálunum. Ráðherra Sjálfstæðisflokksins fer með heilbrigðismálin.

Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur verið skýr. Í umræðum fyrr í dag hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins einmitt sagt: Við virðum skoðanir vinstri grænna vegna þess að þær eru klárar og afdráttarlausar en við erum ekki sammála þeim. Sama gætum við sagt um skoðanir Sjálfstæðisflokksins. Þær koma grímulaust fram. Það má virða þær en við erum ekki sammála þeim.

Ef við lítum á stefnu Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum — einkavæðingarmálum — hefur krafan um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu verið skýr á undanförnum landsfundum. Í ályktun frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2007 stendur, með leyfi forseta:

„Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum svo sem á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála.“

Er þetta ekki allt að gerast? Ráðherra heilbrigðismála er úr Sjálfstæðisflokknum. Ráðherra menntamála er úr Sjálfstæðisflokknum. Reyndar þurfa þeir ekki að hafa ráðherra orkumála í Sjálfstæðisflokknum því einkavæðingarsinninn, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, fer með þau mál. Það varð líka mikill fögnuður þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði myndað ríkisstjórn með Samfylkingunni á grundvelli þessa stefnumiða sinna.

Mér finnst að hv. þm. Ásta Möller eigi ekki að skammast sín fyrir einkavæðingartalið. Þetta er stefna flokksins. Ég hlustaði á ræðu hennar áðan. Hún átti í vandræðum og ræðan var full af tungubrjótum, einkarekstur, einkavæðing æ, æ, æ. (ÁMöl: Ég var ekki með neinn tungubrjót.) Bíddu við. Nei, það var því miður hv. þingmaður — (Gripið fram í.)Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar, olli mér nokkrum vonbrigðum þegar hún kveinkaði sér undan því að taka sér orðið einkavæðing í munn. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins. Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde var yfir sig ánægður með að hafa fengið Samfylkinguna í ríkisstjórn. Af hverju? Jú, þá var hægt að koma einkavæðingu í heilbrigðismálum á fullt skrið. Með leyfi forseta vil ég vitna í orð hæstv. forsætisráðherra Geirs H. Haarde í Morgunblaðinu 30. september 2007:

„Við vildum mynda ríkisstjórn þar sem hægt væri að þróa samfélagið áfram og gera víðtækari breytingar í ætt við okkar stefnu en kannski hefði tekist á öllum sviðum í fyrrverandi ríkisstjórn og var líklegt í annars konar samstarfi.“

Mikilvægt væri að hafa í huga að núverandi ríkisstjórn ætlaði að taka til hendinni. Hann nefndi heilbrigðismálin sérstaklega og sagði orðrétt:

„Þar eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið.“

Samkvæmt stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég skil að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde sé ánægður með að hafa fengið Samfylkinguna með sér í ríkisstjórn ef hún er eins leiðitöm að fylgja eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingarmálum og hann segir í þessu viðtali. Okkur þótti Framsókn býsna leiðitöm (BJJ: Svona, svona. ) Sjálfstæðisflokknum, líka í einkavæðingarmálum, en þarna er fagnað. Þetta eru húrrahróp forsætisráðherrans yfir því að hafa fengið Samfylkinguna til liðs við sig því þá var ekkert því til fyrirstöðu að keyra einkavæðinguna áfram. Setningin sem ég las áðan upp úr ályktun Sjálfstæðisflokksins, þar sem talað var um að koma einkavæðingunni á fullt skrið, er að birtast núna. (Gripið fram í: Einkavæða allt bara.) Einkavæða allt. Já, ég kem að því aftur.

Við þekkjum þessa einkavæðingu. Við þekkjum áhrif þess að Landssíminn var einkavæddur og seldur og einkavæðingu bankanna sem núna eru að fara yfir um. Fjármálakerfið stendur að minnsta kosti töluvert völtum fótum.

Á hverjum bitnar einkavæðingin fyrst? Jú, á landsbyggðinni, dreifbýlli svæðum. Hún bitnar á þeim hópum sem þurfa sérstaklega á samhjálpinni í þjónustunni að halda. Þess vegna vitum við hvað vakir fyrir ríkisstjórninni með því að einkavæða heilbrigðiskerfið. Ég er í sjálfu sér ekki á móti einkavæðingu þar sem hún á við. Ég skammast mín ekki fyrir að taka mér í munn orðið einkavæðing en menn mega ekki heldur ekki fela sig á bak við og kynna allt annað en það sem er. Það er miklu betra að tala hreint út.

Ég hef hlustað á þingmenn Samfylkingarinnar tæpa á og í raun skammast sín fyrir að ganga undir jarðarmen með Sjálfstæðisflokknum í orði, þá bláköldu staðreynd sem einkavæðing heilbrigðiskerfisins er. Ýmsir aðrir jafnaðarmenn kunna þó að lesa í málin og tala tæpitungulaust. Betra væri ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson eða hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, fylgdust með grasrótinni í sínum flokki. Í ályktun sem kom í gær frá ungum jafnaðarmönnum — sem vilja fresta frumvarpi heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar — segir, með leyfi forseta:

„Ungir jafnaðarmenn lýsa undrun sinni yfir því að þingflokkur Samfylkingarinnar ætli að stuðla að því að frumvarp heilbrigðisráðherra um sjúkratryggingar verði samþykkt óbreytt á yfirstandandi þingi.“

Í ályktun ungra jafnaðarmanna segir að frumvarpið geri ráð fyrir að fela einkaaðilum rekstur og áfram mætti vitna í þetta álit grasrótar Samfylkingarinnar. Mér sýnist að ungir jafnaðarmenn ættu miklu frekar heima í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Frumvarpið gengur því í grundvallaratriðum gegn stefnu Samfylkingarinnar en kjarni þeirrar stefnu birtist í því grunnskilyrði að réttarstaða almennings breytist ekki verði einstaklingum falið að sinna þjónustu á sviði heilbrigðismála. Sennilega hafa ungir jafnaðarmenn þá verið andvígir þessari ríkisstjórnarmyndun og því að Samfylkingin gekk undir stefnu Sjálfstæðisflokksins í einkavæðingarmálum sem hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde var svo ánægður með.

Til að minna á áhrif aukins ráðherraræðis tilkynnti ráðherra seinni partinn í vetur að hann hefði ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi vestra og einnig heilbrigðisstofnanir á Vesturlandi. Sameiningin átti að koma til framkvæmda 1. janúar 2009 og allt yrði unnið og undirbúið í nánu samráði við heimamenn.

Hver hefur reynslan orðið þar? Nánast ekkert samráð hefur verið haft við heimafólk um skipan þessara mála og ég veit að hvorki Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki né Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi vita hvað þeirra bíður. Sama á við um heilbrigðisstofnanirnar í Stykkishólmi og Borgarnesi. Ég er hér með Stykkishólmspóstinn frá því fyrir viku síðan þar sem samskipti við ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru rakin. Hann hafði ætlað að koma og ræða við heimamenn um tillögur sínar og áform en fundinum var frestað, seinkað og síðan aflýst. Að lokum var hann reiðubúinn að hitta fulltrúa sveitarstjórnar í Reykjavík fyrir skömmu síðan. Samráðið er því ekki neitt.

Hér hefur verið minnst á fjárveitingar. Með þeim er hægt að stýra atburðarásinni. Það sem hefur gerst, mun gerast og er að gerast núna er að stofnanir eru sveltar til þess að útvista verkefnum sínum. Þetta er að gerast á þessum stofnunum sem ég nefndi og einnig á Heilbrigðisstofnun Austurlands eins og sagt var frá í fréttum fyrir skömmu síðan.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson ræddi um fjárlagagerðina og því hef ég hér lista yfir stöðu eða áætlaða rekstrarþörf heilbrigðisstofnana í landinu og þá þörf sem ekki var fullnægt en var fyrirsjáanleg við fjárlagagerð síðasta haust. Þar á meðal var Heilbrigðisstofnun Austurlands sem var sameinuð úr mörgum stofnunum í hagræðingarskyni en hefur síðan þá verið í stöðugu og miklu fjársvelti og átt erfitt með að sinna lögboðnum hlutverkum sínum vítt og breitt um héraðið vegna fjárskorts. (Gripið fram í.)

Það er talað um neyðarástand. Ég veit ekki til þess að ráðherra grípi nokkuð inn í enda er stefnan að svelta stofnanir til að útvista verkefnum. Ég get sagt sögu af Landspítalnum. Ég þurfti sjálfur að fara á bráðamóttöku Landspítalans í vor og fékk þar mjög góða fyrirgreiðslu. Þá sagði læknirinn mér að á einungis tæpum tveim mánuðum hefðu þau tekið við, að mig minnir, níu sjúklingum með lungnabólgu af einkarekinni heilbrigðisstöð. Það kostaði svo mikið að hafa þessa dýru sjúklinga inni á stofnuninni og miklu ódýrara var að senda þá inn á Landspítalann og láta hann sjá um þessa dýru þjónustu. Það þurfti næturvakt og dýr lyf. Síðan sagði læknirinn við mig: Svo er klykkt út með því að sama stofnun reynir að yfirbjóða starfsmenn okkar sem eru yfirhlaðnir af verkum.

Þetta gerist þegar farið er út á braut einkavæðingar. Mig minnir að hv. þm. Ásta Möller hafi talað um að kostnaðarvitundin og markaðssjónarmið væru hvati til betri rekstrar. Já, ef hægt er að koma vandanum yfir á aðra. Það var gert í þessu tilviki og við stöndum frammi fyrir því að það verði gert. Verði þessi þjónusta markaðsvædd og einkavædd eins og hér er lagt til munum í rauninni við fá lagskipt, tvískipt heilbrigðiskerfi. Annar hlutinn tekur þann hluta sem hægt er að græða á og hinn hlutinn fer þangað sem hið opinbera verður að greiða meiri kostnað.

Nei, við viljum heildarsamtryggingu heilbrigðiskerfisins en ekki einkavæðingu Sjálfstæðisflokksins sem hér er keyrð áfram. Það er dapurlegt að verða vitni að þeim undirlægjuhætti (Forseti hringir.) sem þingmenn Samfylkingarinnar sýna gagnvart einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í heilbrigðismálum.