135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:18]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða í dag og víða verið borið niður. Eitt af því síðasta sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni var hugtakið einkavæðing og það hugtak hefur verið vinstri grænum mjög tamt í munni í dag. (JBjarn: Við erum órædd við það.) Það er ágætt, það er fínt, gott. Allt í fína lagi með það, einkavæðingu á Landsvirkjun þar á meðal geri ég ráð fyrir. (Gripið fram í.)

Það er vísvitandi sem ég nota ekki hugtakið einkavæðing um heilbrigðisþjónustuna vegna þess að ég hef annan skilning á hugtakinu einkavæðing en hv. þingmenn Vinstri grænna. Í mínum huga er það einkavæðing þegar bæði fjármögnun og rekstur fer frá ríki til einkaaðila. (Gripið fram í.) Já, en það eru engar hugmyndir uppi um að færa fjármögnun frá hinu opinbera yfir til einkaaðila. Ég nota hugtakið aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu eða aukið samstarf ríkis og einkaaðila um rekstur heilbrigðisþjónustu eða að veita heilbrigðisþjónustu. Ég hef ekki vísvitandi verið að þjarka um hvernig þetta hugtak er skilgreint. Við vitum að við skilgreinum það á mismunandi hátt og það hefur enga þýðingu að þjarka um það frekar. Hins vegar tók ég eftir að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði hér fyrr í dag að Vinstri grænir væru í sjálfu sér ekkert á móti einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og þannig séð erum við sammála um það. Þeir hafa tekið ýmis dæmi um einkarekstur sem þeir gætu vel hugsað sér þó að greinilegt sé að það er ekki sama á hvaða vettvangi einkareksturinn er eins og dæmi komu fram í dag varðandi Grund. Grund er í lagi ef menn halda sig við elliheimilið Grund en Grund er ekki í lagi ef sú stofnun tekur að sér reksturinn á Landakoti. Það var mjög athyglisverð umræða sem varð um það í dag. (Gripið fram í.)

Hins vegar hafa hv. þingmenn líka kvartað undan því að við höfum ekki rætt sérstaklega um einkarekstur almennt í þessari umræðu. Það er vegna þess að þetta frumvarp er ekki sérstök forsenda þess að fara í aukið samstarf við einkaaðila. Það hefði verið hægt miðað við núgildandi lög og þannig séð er ekki nein sérstök ástæða til að draga sjúkratryggingafrumvarpið inn í það. Sjúkratryggingafrumvarpið er, eins og komið hefur fram í dag, fyrst og fremst hugsað til að setja ramma utan um þá hugmyndafræði að kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna og skilgreina þar kaupendur að þjónustu sem er ríkið og veitendur sem eru aðrir aðilar. Við erum ekki með neina fordóma gagnvart því hverjir þeir aðrir aðilar eru svo framarlega sem ákvæði um jafnræði, öryggi, aðgengi, gæði og kostnað eru uppfyllt. Við lítum svo á að ekki sé verið að fara út í neina breytingu í þá veru að kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu leyfist að vera eitthvað dýrari gagnvart einkaaðilum en opinberum aðilum. Ég tel einmitt að leggja eigi mikla áherslu á að ná sem bestum samningum við aðila hvaða rekstrarform sem er notað og þá sé ekkert sérstaklega horft til þess að veita eigi einkaaðilum sérstaka arðsemi. Ég hef engan sérstakan áhuga á því, ég hef áhuga á að veita skjólstæðingum gæðaþjónustu og á góðu verði fyrir skattborgarana.

Ég vildi líka nefna sérstaklega í þessari umræðu að mér finnst mjög mikilvægt að hin nýja stofnun leggi áherslu á að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar. Meiri hluti hv. heilbrigðisnefndar hefur í umfjöllun sinni um frumvarpið lagt áherslu á að styrkja gæða- og eftirlitshlutverk sjúkratryggingastofnunar með starfsemi samningsaðila. Í því skyni lagði meiri hluti nefndarinnar til breytingar á frumvarpinu við 2. umr. þar sem skerpt var á þessu hlutverki hinnar nýju stofnunar. Breytingin var í þá veru að stofnuninni er áskilið að setja í samninga ákvæði sem ætlað er að stuðla að gæðum og árangri þjónustunnar, m.a. um gæðastjórnunarkerfi og vottun þeirra, faggildingu, árangursmælingar og upplýsinga- og skýrslugjöf. Þetta þýðir að stofnunin þarf að byggja upp gæða- og eftirlitskerfi. Mér þykir rétt að taka mið af reynslu Svía í því sambandi en hjá þeim hefur verið lögð mikil vinna í þróun gæðastaðla um einstaka þætti þjónustunnar eins og við komumst að raun um í ferð hv. heilbrigðisnefndar til Svíþjóðar um daginn. Þar var einmitt lögð mikil áhersla á það grasrótarstarf sem væri í gangi um samkeppni um að móta gæðastaðla og að það væri samkeppni um gæði á milli stofnana þannig að samkeppnin væri ekki fyrst og fremst um verð heldur gæði sem hægt væri að sýna þeim skjólstæðingum sem sækjast eftir þjónustunni eða þurfa á henni að halda. Meiri hluti heilbrigðisnefndar skerpti á þessum þætti við 3. umr. frumvarpsins með því að leggja til þá breytingartillögu að hlutverk stofnunarinnar verði styrkt í þá veru sem er í 5. gr. frumvarpsins og ég hef þegar gert grein fyrir í fyrri ræðu minni.

Við höfum að sumu leyti vísi að slíkum gæðaþáttum t.d. í starfsemi hjúkrunarheimila þar sem RAI-matskerfið sem þar er notað er ekki eingöngu notað til grundvallar greiðslu daggjalda heldur einnig sem gæðakerfi til að tryggja ákveðin gæðaviðmið í þeirri þjónustu sem keypt er af opinberu fé. En það verður að segjast eins og er að gæðaþróun í starfsemi heilbrigðisstofnana er fremur vanþróuð hér á landi og langt frá því sem best þekkist. Við stærum okkur samt sem áður af því að hafa eina bestu heilbrigðisþjónustu í heimi og bendum m.a. á alþjóðleg viðmið um ævilengd og lágan ungbarnadauða, góðan árangur í meðferð krabbameina o.s.frv. Við höfum á hinn bóginn mjög vanþróaðar upplýsingar um óhöpp, mistök og atvik í heilbrigðisþjónustu sem hafa skaðað sjúklinga. Það kom m.a. fram í svari hæstv. heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni fyrir nokkrum missirum. Og þar sem gæðastaðlar hafa verið settir eru þeir yfirleitt ekki bindandi og oft settir einhliða, t.d. af landlækni eða fagfélögunum, án þess að eftirlit sé haft með því hvort þeim sé fylgt. Hér þarf að taka betur á. Ég legg ríka áherslu á þennan þátt í starfsemi stofnunarinnar. Þannig á stofnun ekki eingöngu að vera kaupandi heilbrigðisþjónustu heldur setja gæðaviðmið um það sem keypt er og hafa eftirlit með að svo sé og birta svo þess vegna niðurstöður opinberlega til að almenningur geti haft nauðsynlegar upplýsingar í höndunum þegar leitað er eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Í Stokkhólmi hefur verið það framtak á þessu ári að almenningur hefur aðgang að upplýsingum um árangur og gæði þjónustu frá mismunandi meðferðaraðilum t.d. á heilsugæslustöðvum, á netinu, á veffangi sem heilbrigðisyfirvöld halda úti. Þetta er m.a. gert til að auðvelda fólki val á þjónustuaðila ef svo ber við en auk þess leiðir það auðvitað til aðhalds og aukinnar samkeppni um gæði í þjónustu sem á að vera keppikefli okkar allra. Í Bretlandi hef ég líka séð að þar eru birtar opinberlega upplýsingar í fjölmiðlum um gæðamat, niðurstöður samræmds gæðamats á heilbrigðisstofnunum sem ég tel einnig vera af hinu góða.

Í umsögnum ýmissa stofnana, m.a. Samtaka heilsugæslustöðva sem eftir að lögin taka gildi verða seljendur þjónustu, má greina ákveðinn kvíða á stöðu slíkra stofnana gagnvart sjúkratryggingastofnun. Hið sama á við um fagfélög sem hingað til hafa verið í forsvari fyrir félagsmenn í samningum um þjónustu einstakra fagstétta. Við spurðum um þetta atriði í ferð heilbrigðisnefndar til Svíþjóðar og þar kom fram að stjórnendur heilbrigðisstofnana voru í raun og veru mjög fljótir að koma sér upp þekkingu á kostnaðargreiningu og samningum í heilbrigðisþjónustu og töldu menn þar að slíkar áhyggjur væru óþarfar. Meðal annars sagði Birgir Jakobsson, aðspurður, að þessi breyting ætti ekki að vera mikið mál fyrir minni stofnanir, þær væru fljótar að koma sér upp þekkingu og takast á við þetta verkefni enda væri það lífsspursmál fyrir slíkar stofnanir að geta sýnt fram á að verkefnin séu gagnsæ. Hins vegar mætti búast við því að það tæki ákveðinn tíma að byggja upp samband á milli kaupanda og seljanda þjónustu sem byggist á trausti og skilningi og það væri reynsla manna í Svíþjóð. En jafnframt yrði að sjá til þess að færni og þekking beggja samningsaðila væri á svipuðu stigi til að ásættanleg niðurstaða fyrir báða aðila næðist.

Þetta kallar á það að sjúkratryggingastofnunin þarf að hafa í þjónustu sinni einstaklinga sem hafa mikla faglega þekkingu á þeim sviðum sem verið er að semja um auk lagalegrar, viðskiptafræðilegrar og heilsuhagfræðilegrar þekkingar á viðfangsefninu. Á þetta hefur skort á undanförnum árum eins og ég hef sagt áður í samningum við heilbrigðisstéttir, stofnanir og fyrirtæki sem heilbrigðisþjónusta hefur verið keypt af hvort heldur hjá Tryggingastofnun eða samninganefndum á vegum ríkisins með þeim afleiðingum að mínu mati að hagsmunir ríkisins hafa ekki alltaf verið hafðir í hávegum og jafnvel orðið undir.

Varðandi það ákvæði sem hefur verið hér til umfjöllunar um það hverjir koma að samningsborðinu af hálfu fagaðila þá hefur það verið gagnrýnt í dag að það er ekki gert ráð fyrir að fag- eða stéttarfélög komi að því borði. Ég lít svo á að fag- og stéttarfélög muni fá breytt hlutverk í þessum efnum og þau komi til með að styðja við félagsmenn sína í samningum við sjúkratryggingastofnun um kaup á þjónustu með öðrum hætti en tíðkast hefur. Ég sé það m.a. fyrir mér og líki því við það breytta hlutverk sem fag- og stéttarfélög fengu þegar nýtt launakerfi ríkisins var tekið upp og aðlögunarsamningar færðir inn á stofnanir að þá voru það starfsmenn stofnananna sem tóku að sér gerð aðlögunarnefndarsamninga. Á hinn bóginn stóðu fag- og stéttarfélögin á bak við með ráðleggingar og stuðning við félagsmenn í stað þess að vera beinn viðsemjandi. Ég sé þetta breytta hlutverk koma fram með þessum hætti. Ég tel einnig að þessi leið gefi aukna möguleika á því að fleiri faggreinar komi að samningum við sjúkratryggingastofnun þannig að gerður verði víðtækur samningur um tiltekna þjónustu þar sem fleiri en ein fagstétt koma að. Í dag hefur verið samið við einstakar fagstéttir um einhvern bútasaum í stað þess að horfa á heildarþjónustuna þar sem fleiri en ein fagstétt koma að. Ég held að þetta muni gefa mikla möguleika fyrir þjónustuna og fyrir faggreinarnar líka og sjúklinga. Þetta mundi kalla á aukna samfellu og aukið samstarf milli fagstétta eins og í raun og veru hefur þróast í dag. Ákvörðun um meðferð sjúklinga liggur yfirleitt ekki hjá einni fagstétt heldur er hún samvinnuverkefni fleiri fagaðila og samningar með þessum hætti gefa möguleika á því.

Fyrr í dag var vísað til fyrri reynslu minnar sem formaður stéttarfélags og ég vil láta það koma fram að þegar ég var í forsvari fyrir hjúkrunarfræðinga og í samningum við Tryggingastofnun opnaði félagið á það að ekki yrði samið við félagið heldur einstaka hópa, einstaka hjúkrunarstofur ef svo bæri við, þannig að í því er engin stefnubreyting frá minni hendi.

Í samtölum við sjúkraþjálfara hefur einnig komið fram að þeir hafa litið svo á að heildarsamningar við stéttarfélög hafi verið mjög takmarkandi fyrir stéttina þar sem samið hefur verið um almenna þætti en séráherslur ákveðinna sérgreina innan sjúkraþjálfunar hafi orðið út undan. Sjúkraþjálfarar hafa lýst því í samtölum við mig að þeir sjái þarna ákveðna möguleika á að gera samninga um sértæka þætti í þjónustu við skjólstæðinga.

Ég vil að lokum benda á í þessu sambandi að í núgildandi almannatryggingalögum er ekki vísað til þess að það sé samið sérstaklega við fag- eða stéttarfélög heldur við einstakar stéttir.

Tími minn er að renna út en mig langaði í lokin að taka upp tvö atriði af mörgum í greinargerð með nefndaráliti frá 1. minni hluta heilbrigðisnefndar um reynslu Íslendinga af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og leiðrétta þar ákveðna hluti. Þar er fullyrt að kostnaður við þjónustu einkaaðila sé meiri en opinberra aðila og er vísað annars vegar í heilsugæslustöðina í Salahverfi í Kópavogi og hins vegar í öldrunardeildina á Landakoti.

Varðandi öldrunardeildina á Landakoti þá er ekki rétt sem þarna kemur fram að það hafi verið dýrara að semja við Grund heldur var þegar upp var staðið u.þ.b. 17 millj. kr. sparnaður að því. Fyrir utan þann samning sem heilbrigðisráðuneytið hafði gert við stjórnendur Landspítala á Landakoti hafði Landspítalinn sjálfur lagt til aukafjármagn þannig að raunverulegur kostnaður vegna hvers sjúkling var áður um 22 þús. kr. á dag en (ÁI: … 17 milljónir?) — sparnaðurinn var um 17 millj. kr. þegar upp var staðið — kostnaðurinn var um 22 þús. á dag en það var samið um 21 þús. kr. Þetta var því ekki rétt. Og varðandi heilsugæslustöðina í Salahverfi kemur fram í athugun, sem hefur reyndar ekki verið birt, að þar voru fullkomlega sambærilega forsendur lagðar til grundvallar í mati á kostnaði hinna ýmsu heilsugæslustöðva (Forseti hringir.) og þar kom Salahverfið best út.