135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni heilbrigðisnefndar fyrir og talsmanni Sjálfstæðisflokksins fyrir að staðfesta að það séu áform um að færa verulegan hluta heilsugæslunnar yfir í einkarekstur. Það er út af fyrir sig athyglisverð yfirlýsing. Ég veit ekki hvort hún hefur komið fram með svona skýrum hætti hér áður í umræðunni. Ég vona að þeir samfylkingarmenn, hv. þingmenn, sem hér eru hafi tekið eftir þessum orðum.

Ég held að það sé ákaflega óheppilegt hvort sem það kemur frá ASÍ, í umsögn eða úr munni hv. þingmanns að reyna alltaf að leggja að jöfnu góðan einkarekstur félagasamtaka, sjálfseignarstofnana, almannaheillasamtaka annars vegar og „púra“-einkarekstur í ágóðaskyni hins vegar. Við leggjum þetta ekki að jöfnu og viljum draga algjörlega skýra víglínu þarna á milli.

Það er alveg óþolandi að menn þvæli því alltaf hér inn í umræðuna að við eigum sjálfseignarstofnanir og félagasamtök sem hafa um áratugi verið hluti af uppbyggingu sameiginlegrar opinberrar velferðarþjónustu okkar og annast þar mikilvæg hlutverk og byggja þá starfsemi upp án þess að draga arð út úr henni og án þess að ætlast til ágóða af rekstrinum annars en þess sem fólgin er vellíðan þeirra sem þeir veita þjónustu. Við erum að tala hér um tvo algjörlega ósambærilega hluti.

Ég verð ekki var við að það standi til að færa meira úr hinni hefðbundnu opinberu heilbrigðisþjónustu endilega yfir til einhverra félagasamtaka. Ég held að draumar sjálfstæðismanna séu um hið gagnstæða, að það eigi að vera fyrirtæki, hlutafélög, gróðastarfsemi sem komi inn í þetta af fullum þunga og þá eiga menn auðvitað að segja það og ræða bara hreinskilnislega um hlutina. Ekki blanda hér saman tveimur óskyldum hlutum sem þetta auðvitað eru, af því þetta er eðlisólík starfsemi, eðlisólík nálgun í rekstri en það er auðvitað greinilega verið að reyna (Forseti hringir.) að læða gróðasjónarmiðunum og lögleiða þau með því að slá þeim saman við rekstur eins og á vegum SÍBS eða SÁÁ eða einhverra slíkra samtaka.