135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:11]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í andsvar við hv. þingmann en hins vegar verð ég að ítreka það sem ég sagði áðan, að kostnaðurinn við rekstur á hverju sjúkrarúmi á Landakoti á þessari tilteknu öldrunardeild var 22 þús. kr. á dag og hann var lækkaður niður í 19.700 kr. Varðandi þá upphæð sem kemur fram hjá hv. þingmanni, 18.260 kr., þá er rétt að milli heilbrigðisráðuneytisins og stofnunarinnar var samningur um að greiða af sérstöku fé sem var tekið til hliðar í því skyni að minnka biðlistann, að greiða sérstaklega fyrir rekstur þessarar deildar. Hins vegar var kostnaður spítalans ekki 18.260 kr. heldur var hann raunverulega 22 þús. kr. Með þessu útboði tókst því að lækka kostnað við rekstrardeildina úr 22 þús. kr. niður í 19.700 kr. og eftir því sem ég kemst næst og hefur verið sagt í mín eyru þá fól þetta í sér, miðað við samningstímabilið, 16,8 millj. kr. sparnað. Það er hið rétta í þessu. Þessar upplýsingar hafa komið fram áður, m.a. ef ég man rétt inni á hinu háa Alþingi.

Hv. þingmaður spyr jafnframt um stöðu heilbrigðisáætlunar. Heilbrigðisáætlun stendur fyrir sínu með öllum þeim ágætu markmiðum sem þar koma fram. Það er m.a. hægt að nota þá hugmyndafræði sem þar kemur fram um kaup og sölu á heilbrigðisþjónustu til þess að ná ákveðnum markmiðum til þess að bæta heilbrigði. Þetta samsvarar því alveg ágætlega hugmyndafræðinni um kaupendur og veitendur, hugmyndafræðinni um sjúkratryggingastofnun og heilbrigðisáætlun.