135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:13]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í mínum fórum útskrift af nokkuð mörgum fréttum, bæði í sjónvarpi og útvarpi, þar sem fram kemur það sem ég sagði áðan, að samningar hafi náðst um rekstur umræddrar deildar á Landakoti um 19.800 kr. fyrir daginn með skilyrðum um lengri samningstíma og Landspítalinn taki að sér vakt hjúkrunarfræðings á nóttunni um helgar. Það framlag spítalans er ekki reiknað sem kostnaður inni í þessu dæmi.

Í þessum fréttum kemur einnig fram að með þessum samningi spari ríkið því 14,6 millj. kr. fyrir spítalann — þetta er haft eftir Birni Zoëga sem þá var forstjóri Landspítalans — en ekki 17 millj. kr. eins og hv. þingmaður sagði.

Það er ljóst, herra forseti, að við undirbúning þessa máls, með smyglgóssinu sem var sett inn í frumvarpið í vetur, sjúkratryggingastofnun sem sett var inn í bandorminn, að við framlagningu og tilurð þessa máls hefur pólitísk sýn ráðið meiru en reynsla, bæði okkar heima og reynsla Svía og Breta. Það er dapurlegt hversu miklar valdheimildir ráðherra fær með þessu frumvarpi í ljósi þess hver stefna hans er og hver yfirlýst stefna Sjálfstæðisflokksins er. Það er undarlegt að samfylkingarmenn skuli — mætti ég, herra forseti, [Kliður í þingsal.] fá frið til að ljúka máli mínu fyrir hæstv. varaforseta. Ég ætlaði að segja að það er dapurlegt til þess að vita að valdheimildir ráðherra eru svo miklar í frumvarpinu vegna stefnunnar sem er yfirlýst í málinu og það er önugt og óskiljanlegt að Samfylkingin skuli fagna þessu frumvarpi, berja sér á brjóst og kalla það kjark og þor.