135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:16]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég gerði nokkrar athugasemdir við það hvað heilbrigðisráðherra sæist hér lítið í sölum og boðaði að ég hefði áhuga á því að leggja fyrir hann spurningar í seinni ræðu minni en þar sem hún er ákaflega stutt væri æskilegt að það drægist ekki mikið að ráðherra kæmi í salinn.

Hv. þm. Ásta Möller spyr hvernig við flokkum rekstur sjálfstætt starfandi sérfræðinga og hvað það sé. Því er einfalt til að svara: Í heilbrigðisstefnu okkar er tekið alveg af skarið um að að sjálfsögðu geta sjálfstætt starfandi einyrkjar verið hluti af þessu kerfi enda séu þeir innan almannatryggingakerfisins og við þá samið á eðlilegum grundvelli. Og hvað er það sem menn hafa yfirleitt reynt að leggja til grundvallar slíkum samningum? Jú, það er að þar sé fyrst og fremst gengið út frá því að út úr samningnum komi eðlileg laun til viðkomandi sjálfstætt starfandi aðila að viðbættu því að hann hafi fengið starfskostnað sinn og rekstrarkostnað greiddan. Þá er það auðvitað allt annar hlutur en sá einkarekstur í ágóðaskyni í fyrirtæki sem getur skilað öðrum en þeim sem þar starfa, þ.e. eiganda utan úr bæ, fjárfesti, bullandi arði. Að þessu leyti á að sjálfsögðu ekki heldur að leggja þessa hluti að jöfnu.

Það er því miður veruleg hætta á því, herra forseti, að þetta frumvarp geti átt eftir að reynast úlfur í sauðargæru. Það er kunnuglegt ferli að mörgu leyti sem við stöndum hér frammi fyrir. Ég var að hugsa um það áðan hvort menn hefðu lesið frásagnir og upplýsingar af bréfaskriftum þeirra frúar Margrétar Thatcher og Pinochets húsbónda í Chile þegar þau áttu skoðanaskipti og bréfaskipti um það hvernig væri mikilvægt að læða nýfrjálshyggjunni og markaðsvæðingunni í lævíslegum og hóflegum skrefum og hvað væri hægt að bjóða mönnum upp á stóra skammta í hverju landi.

Frumvarpið þýðir vissulega ekki sjálfkrafa einkavæðingu eða útboð á meiru en gert er í dag en það opnar allar gáttir fyrir það, það gerir það. Það er ekki hægt að horfa fram hjá pólitísku baklandi þessa máls sem liggur í Sjálfstæðisflokknum, í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, í þeirri heilbrigðisstefnu sem ráðherra hefur mótað sér og jafnvel að einhverju leyti í orðalagi stjórnarsáttmálans.

Það sem ég vil inna hæstv. ráðherra eftir er í fyrsta lagi: Hvernig hyggst hann fara með ráðherravæðinguna í þessu frumvarpi, t.d. það að skipa stjórn fyrir hinni nýju stofnun? Verða það fjórir gæðingar, einkavæðingarsinnar úr Sjálfstæðisflokknum og kannski einn fagaðili sem fara þar inn? Gæti ráðherra hugsað sér að hún yrði þverpólitískt skipuð?

Í öðru lagi: Hvernig hyggst ráðherra fara með það einstæða stefnumótunarvald, lögverndaða stefnumótunarvald sem þarna á að fara að kveða á um og ég fullyrði að er mjög sérstætt í íslenskri löggjöf? Það er ekki hefðbundinn frágangur á forræði ráðherra yfir málaflokki þar sem oftast er látið nægja að taka fram í 1. gr. að málaflokkurinn heyri undir ráðherra, að hann sé yfir honum í venjulegum skilningi stjórnsýslunnar. Hér er annað og meira á ferðinni. Það er alveg sérstakt lögverndað stefnumótunarvald sem á síðan að ganga inn í kerfið og aðrir aðilar verða skuldbundnir til að vinna samkvæmt pólitískum markmiðum eða stefnumiðum ráðherrans, t.d. um það að á næstu nokkrum árum skuli bjóða alla heilsugæsluna í landinu út. Bang! Ráðherrann er með lögvarða stöðu í því og aðilar innan kerfisins skulu veskú gera það.

Hversu bundinn af landsfundarsamþykktum Sjálfstæðisflokksins telur hæstv. heilbrigðisráðherra sig vera, hvað er mikið í pípunum? Hvað var á bak við orð forsætisráðherra þegar hann útlistaði áformin samkvæmt stjórnarsáttmálanum og hrósaði Samfylkingunni fyrir að vera auðsveip og samvinnufús í einkavæðingu á þessum sviðum, heilbrigðismálum, orkumálum o.fl., umfram aðra flokka sem völ hefði verið á samstarfi við? Er hægt að fá einhverjar nánari upplýsingar um það hvað þarna er í vændum þótt seint sé og áliðið í umræðunni? Mér finnst að aðstandendur þessa máls skuldi á því skýringar og eigi að manna sig upp í að vera hreinskiptnir í þeim efnum að gangast við verkum sínum og því sem áformað er. Það liggja fyrir miklu meiri en nægar vísbendingar til þess að rökstyðja spurningar af þessu tagi, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar hefur boðað miklar breytingar sem í vændum séu í heilbrigðismálum á grundvelli þess sem um hafi samist í stjórnarsáttmálanum. Ég vísa því til þess og þeirra gagna og ályktana sem hér hefur verið vitnað til í umræðunni og bíð spenntur eftir að heyra hvað (Forseti hringir.) heilbrigðisráðherra hefur fram að færa í þeim efnum.