135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:28]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Málið er vissulega á vettvangi þingsins en það breytir engu um þær þinghefðir að ráðherrar sem eru samviskusamir og sýna umfjöllun þingsins um mál virðingu og sjálfum sér og sínu embætti, reyna gjarnan að vera viðstaddir umræðuna og fylgjast með henni og jafnvel blanda sér í hana, jafnvel svara að einhverju leyti spurningum í andsvörum sem þeir hafa góða aðstöðu til ef þeir eru hér í salnum, það er bara einfaldlega þannig. Ég hef hlýtt á umræðuna í allan dag og tel mig alveg þokkalega færan til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál og ég held að ég sé ekkert að misskilja það. Ég held að okkur hafi tekist alveg ágætlega að draga upp þann bakgrunn málsins og þá hugmyndafræði sem á bak við liggur, sem er hins vegar greinilega mjög viðkvæm af hálfu Sjálfstæðisflokksins, væntanlega vegna þess að hann vill ekki gera samstarfsflokknum þann óleik að það birtist hér of nakið þegar tjöldin eru fallin. Að sjálfsögðu þarf ekki að ræða um að Samfylkingin sver af sér allar breytingar á þessu máli í einkavæðingarátt o.s.frv.

Ég hef ekkert túlkað eða lagt út af orðum forsætisráðherra á þessum fundi, ég hef vitnað orðrétt í þau, ég hef lesið þau upp og spurt: Hvað þýðir þetta í reynd, hver eru þá áformin? Hvað er þetta mikla sem er í pípunum? Er það ómálefnalegt að biðja um upplýsingar um það þegar svona er talað af hálfu forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar? En hæstv. heilbrigðisráðherra bregst við eins og raun ber vitni. Samfylkingin sver að sjálfsögðu af sér allar breytingar í einkavæðingarátt, vill ekki gangast við neinu slíku. Formaður heilbrigðisnefndar kallar ekkert einkavæðingu nema það sé upp á ameríska vísu, að einkaaðilar bæði reki og veiti þjónustuna og menn borgi fyrir hana algerlega sjálfir, sem er allt annað mál en við höfum verið að tala hér um og er nánast ekki til staðar í norrænum samábyrgum velferðarkerfum, eitt prósent, var sagt hér áðan, í Svíþjóð.

Tilraunir okkar hafa því m.a. miðast að því, og ekki síst mínar hér á síðari hluta umræðunnar, að reyna að draga fram hvað er í vændum, hvað er fram undan.(Forseti hringir.) Hvernig verða hinar rúmu valdheimildir ráðherrans notaðar? Hvað er þetta mikla sem er í pípunum?