135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

vopnalög.

660. mál
[23:36]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16 frá 25. mars 1998, með síðari breytingum, sem flutt er af allsherjarnefnd.

Tildrög þessa frumvarps eru þau að þótt hefur skorta í vopnalög heimild til þess að innheimta gjöld fyrir námskeið vegna skotvopna og er ætlunin með þessu litla frumvarpi að bæta úr skorti á gjaldtökuheimild í lögunum. Það er frá því að segja að námskeið þessi hafa verið haldin á ábyrgð ríkislögreglustjóra sem hefur falið Umhverfisstofnun að framkvæma það á undanförnum árum og eru málin í þeim farvegi. En samkvæmt ábendingum sem borist hafa allsherjarnefnd hefur gjaldtökuheimildin ekki verið fullnægjandi og hefur nefndin því tekið sig saman. Er um það full samstaða innan nefndarinnar að flytja breytinguna nú á þessu septemberþingi til þess að unnt verði að innheimta gjöldin á námskeiðum sem nú fara í hönd.

Frumvarpið er einfalt í sniðum og felur í sér að kostnaður vegna námskeiða og prófa greiðist með gjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra og síðan er kveðið á um hvaða ráðherra skuli í reglugerð ákveða námskeiðs- og prófgjöld í ákvæðum um námskeiðin. Í meðförum nefndarinnar hefur komið fram að gjöld þessi eru að sjálfsögðu þjónustugjöld og lúta reglum um þjónustugjöld að því leyti að einungis er heimilt að innheimta gjöld sem nemur þeim kostnaði sem stafar af því að halda námskeiðin þannig að gjaldtakan fer ekki umfram það sem nauðsynlegt er til þess að hægt sé að standa straum af námskeiðshaldinu.

Þar sem málið hefur þegar komið til umfjöllunar í allsherjarnefnd og er flutt af nefndinni tel ég óþarfa að það gangi til nefndar að lokinni 1. umr. Ég legg því til að málið fari beint til 2. umr.