135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

lyfjalög.

662. mál
[23:39]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af heilbrigðisnefnd.

Það hljóðar svo:

„1. gr. Við 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2009.“

Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði að hluta gildistöku 10. gr laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, til 1. janúar 2009 og þá eingöngu hvað varðar smásölu lyfja. Þær breytingar er snúa að afslætti af lyfjum í smásölu haldist þannig í hendur við nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja sem fyrirhugað er að komi til framkvæmda á sama tíma.

Breytingar á lyfjalögum voru samþykktar á vorþingi og eiga þau ákvæði sem frumvarpið tók til að taka gildi 1. október nk. Hér leggur hv. heilbrigðisnefnd til að eitt ákvæði frumvarpsins taki gildi síðar eða 1. janúar 2009 er varðar afslætti af lyfjum í smásölu þannig að það taki gildi um leið og nýtt greiðsluþátttökukerfi, sem áformað er að komi til framkvæmda á sama tíma, taki gildi.

Þar sem frumvarpið er flutt af heilbrigðisnefnd tel ég eðlilegt að það fari ekki til nefndar heldur beint til 2. umr.