135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:37]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af þeirri umræðu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hóf hér og svari hæstv. forseta láta í ljós það sjónarmið mitt að mér finnst mjög brýnt að forseti beiti sér fyrir því að þingmannamál fái meiri og betri umfjöllun í þinginu en verið hefur til þessa. Það er okkur sem erum að hefja störf hér eða hófu störf í kjölfar síðustu þingkosninga mörgum hverjum, og ég held að ég geti fullyrt fólki úr öllum stjórnmálaflokkum, undrunarefni hver afdrif þingmannamála verða gjarnan í þingsal og í störfum nefnda. Og ég leyfi mér að fullyrða að það sé ekki bara málefni þingnefndanna sjálfra eins og hæstv. forseti gat um hver afdrif málanna verða vegna þess að ég hef orðið þess áskynja að þau svör fást jafnvel hjá nefndarformönnum að um það hafi verið tekin ákvörðun, væntanlega á vettvangi stjórnarflokkanna og þess vegna formanna stjórnarflokka eða þingflokksformanna stjórnarflokka, að þingmannamál séu ekki afgreidd og það sé engin afstaða tekin til þess hvert efni viðkomandi mála sé, það sé engin afstaða tekin til þess hvort um sé að ræða þingmál sem fulltrúar úr öllum flokkum flytja og ætti ekki að þurfa að vera mikill pólitískur ágreiningur um. Ég tel að þessi vinnubrögð verði að taka til endurskoðunar og vil hvetja forseta eindregið til að beita sér fyrir því, ekki bara að það geti hugsanlega orðið í einhverri framtíð heldur að það verði raunverulegt átak í því að bæta þessi vinnubrögð því það er þinginu ekki til sóma hversu mörg mál daga uppi og fá ekki efnislega umfjöllun. Og ég get sagt af þeim vettvangi sem ég þekki best, sveitarstjórnarvettvanginum, að þá mundi það aldrei líðast að tillögur sem kjörnir fulltrúar bera fram fái ekki einhverja efnislega meðferð hvort sem menn vilja samþykkja þau mál, breyta þeim eða hafna og því held ég að þingið þurfi að taka sig á í þessu efni.