135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:40]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka hæstv. forseta fyrir breytingar á þingsköpum og sýndan vilja til að efla þingið, bæði að lýðræði og styrk með því að efla nefndir og gera hina lýðræðislegu umræðu markvissari — hæstv. forseti hefur þar stigið mikilvægt skref — þá er auðvitað vert við þessar aðstæður að vekja athygli á því að stoðirnar þrjár, Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn og dómstólar þurfa að búa við mikið jafnræði. Alþingi Íslendinga er mjög veik stofnun og við þurfum að hafa metnað til að styrkja Alþingi, ekki bara hvað stjórnarandstöðu varðar heldur líka til þess að þingmenn finni fótfestu sína sem löggjafar á Alþingi Íslendinga og uni því að vera virðulegir og sterkir alþingismenn.

Sannleikurinn er sá að Alþingi Íslendinga kostar skattborgarana eins og eitt af tólf ráðuneytum. Þess vegna er það mikið kappsmál í mínum huga að efla Alþingi og að Alþingi nái þeirri virðingu sem því ber í samfélaginu, bæði með markvissum vinnubrögðum að hér geti menn notið afls síns og virðingar hvort sem þeir eru stjórnarliðar eða stjórnarandstæðingar og að ríkisstjórnin hafi það aðhald úr báðum áttum sem henni ber. Hún ræður því miður allt of miklu á Alþingi og hefur gert í áratugi, kannski alla tíð. Þess vegna þurfum við að styrkja Alþingi Íslendinga markvisst þannig að það verði virðuleg, hófsöm og sterk stofnun sem alltaf er tekið tillit til.