135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:48]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér annað mál vegna þess að í gær var svartur dagur á mörkuðum á Íslandi. Og ég ætla að ræða við hv. formann efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal, um þetta mál vegna þess að ég tel að það sé erfitt ástand á Íslandi hvað varðar efnahagsmál. Við höfum rætt þetta allnokkuð við hæstv. ráðherra og lítið komið út úr því. Það er því spurning hvort það gæti borið meiri árangur að tala hér við hv. þingmann sem hefur góða og sterka stöðu í þinginu.

Eins og komið hefur fram er hagvöxtur minnstur á Íslandi í öllum OECD-löndum, bæði í ár og á næsta ári samkvæmt spá. Skuldir heimilanna hafa hækkað um 30% síðan núverandi ríkisstjórn tók við. Krónan hefur aldrei verið veikari. Í gær sló gengisvísitalan met, hún stóð í 169 stigum við lok markaða.

Fjárlagafrumvarpið á eftir að birtast okkur og ég get rétt látið mér detta það í hug að þar verði sýndur mikill halli á fjárlögum. Ég held að það sé nokkuð ljóst. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvar tækifærin liggi. Eru stjórnarflokkarnir sammála um að það þurfi að auka hagvöxt á Íslandi? Og hvernig eru hugmyndir um að það verði gert?

Ég óttast að ef það er ekki hægt eða það tekst ekki að auka hagvöxtinn þá stöndum við frammi fyrir því annaðhvort að skera niður þjónustu eða að hækka skatta. Svona er þetta. Þetta er því grafalvarlegt mál og formaður efnahags- og skattanefndar sem þekkir allvel til á markaðnum og hefur a.m.k. reynslu á því sviði hann ætti að geta svarað einhverju um það (Forseti hringir.) hvernig eigi að auka hagvöxtinn á Íslandi.