135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:57]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að víkja að því máli sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom inn á, varðandi hagvöxtinn. Það er uggvænlegt að heyra að hagvöxtur skuli vera hérna minnstur í OECD-ríkjunum. Og þá er náttúrlega spurningin, hvernig stendur á því? Hvað veldur því að svo er komið? Svarið er í sjálfu sér einfalt, það er verið að gera eitthvað rangt í íslensku samfélagi. Það er ekki haldið rétt um efnahagsstjórnina og þeir sem eiga að stuðla að hagvexti fara ekki rétt að.

Hvað er það sem um er að ræða? Það hefur aðeins verið minnst á einn hlut, þó aðeins í framhjáhlaupi en sem skiptir gríðarlegu máli og það er að við erum með gjaldmiðil sem kostar mjög mikla peninga. Það kostar gríðarlega mikið að vera með þennan gjaldmiðil í minnsta myntkerfi heimsins. Við þurfum að borga tugi, einn þingmaður hefur sagt hundrað milljarða á ári til þess að vera með þennan gjaldmiðil sem er þá aukakostnaður á þjóðina og atvinnulífið í landinu.

Annar hlutur er sá að meðan gengisstefnan hefur verið eins og hún hefur verið undanfarin ár þá hefur verið dreginn þróttur úr íslenskum framleiðslufyrirtækjum, úr frumframleiðslunni. Og hvað hefur verið aukið? Það sem hefur verið stuðlað að er það að fjárfesting eigi sér stað erlendis. Í staðinn fyrir það að fjárfesta í íslensku hugviti, í íslenskri þekkingu hefur þessu verið beint inn á fjárfestingar á erlendum húsnæðismörkuðum og erlendum tuskubúðum sem við höfum í sjálfu sér enga sérstaka þekkingu á.

Í samfélagi okkar þurfum við fyrst og fremst að komast í burtu frá kvótakerfi, landbúnaði og sjávarútvegi. Við þurfum að auka frelsi, taka upp gjaldmiðil sem nýtist okkur en frelsið er það sem skiptir máli fyrst og síðast.