135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

störf þingsins.

[14:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér hefur margt áhugavert komið fram. Ég vil benda á það að góð staða ríkissjóðs og afgangur á ríkissjóði undanfarin ár er ekkert annað en aðhald sem vinnur gegn þenslu. Þetta er það sem ríkisstjórnir annarra landa gera til að ná árangri og þannig hefur ríkissjóður unnið með Seðlabankanum í baráttu gegn þenslunni. Ég minni á það að á síðasta ári var geysilega mikill afgangur af ríkissjóði. (BjH: Er þensla núna, Pétur?)

Varðandi töfralausnir sem menn sjá, veifa töfrasprota og allt er komið í lag, upptöku evru, inngöngu í Evrópusambandið þá vil ég minna á það að frá fullveldi Íslands, 1918, hefur hagvöxtur og lífskjör almennings hvergi batnað jafnmikið og hér. Ég vil sjá menn sanna það fyrir mér að það hafi verið slæmt að Ísland sé fullvalda ríki. Það að ganga inn í Evrópusambandið og vera fjarstýrðir frá útlöndum minnir mig á þá 600 ára reynslu sem Íslendingar höfðu af slíku, að vera fjarstýrðir frá landi úti í heimi og það er alveg öruggt að Danir voru ekki vondir menn. En þeir höfðu ekki skilning á íslenskum aðstæðum og þar af leiðandi var staða Íslendinga slík að ég vil ekki upplifa slíkt tímabil aftur. Við þingmenn þurfum að hugsa miklu lengra en 2–3 vikur fram í tímann. Við þurfum að hugsa 100, 200 ár fram í tímann og sjá hvernig Evrópusambandið verður eftir 100 eða 200 ár.