135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Stefna Sjálfstæðisflokksins og hluta Samfylkingarinnar er að einkavæða heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Með þessu frumvarpi er skapaður grundvöllur til þess að framfylgja þeirri stefnu. Ef þetta frumvarp verður að lögum getur það skipt sköpum um framtíðarþróun íslenska heilbrigðiskerfisins. Með tillögum sínum vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð gefa Alþingi færi á að sníða nokkra alvarlegustu gallana af þessari lagasmíð og ég hvet þingmenn til að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fella þær tillögur.

Hvað varðar tillögur stjórnarmeirihlutans þá snúa þær fyrst og fremst að slysatryggingum almannatrygginga. Það er verið að færa þær undir þennan lagabálk. Þær eru ekki til þess fallnar að bæta réttarstöðu fólks. Við erum í sjálfu sér ekki andvíg þeim að innihaldi til en hér er fyrst og fremst um kerfisbreytingar að ræða, ekki innihald og við sitjum hjá við þær tillögur. En ég hvet þingið til að hugsa sig tvisvar um áður en tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru felldar.