135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:10]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni frumvarp sem langflestir hagsmunaaðilar styðja. Það tryggir að aðgangur að heilbrigðisþjónustu verði óháður efnahag. Það verða engar nýjar gjaldtökuheimildir. Það bannar kaup fram fyrir röðina. Það kemur í veg fyrir einokunarstöðu heilbrigðisstefnu gagnvart hinu opinbera. Það skerðir í engu réttindi sjúklinga. Það aðskilur hag kaupenda- og neytendaþjónustuna í anda norrænna velferðarríkja. Það er engin einkavæðing í frumvarpinu. Það kemur í veg fyrir að hæfni opinberra stofnana sé skert með þeim hætti að einkaaðilar tíni ábótasömustu þjónustuþættina út. Og loks tryggir frumvarpið að fjármagn muni fylgja sjúklingum. Öll þessi atriði hljóta að vera fagnaðarefni allra sem vilja setja hag sjúklinganna í forgang og það erum við að gera með þessu frumvarpi.