135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:21]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu varðandi 29. gr. a-lið. En í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðisnefndar við 2. umr. segir eftirfarandi um þetta atriði, með leyfi forseta:

Nefndin ræddi sérstaklega um gjaldtöku á göngudeildum sjúkrahúsa vegna meðferðar og rannsókna, sbr. einnig gjaldtökuheimildir 2. tölul. 29. gr. sem kveður á um heimildir til gjaldtöku fyrir almenna og sérhæfða heilbrigðisþjónustu á göngudeild, dagdeild, slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa án innlagnar á sjúkrahús með vísan í 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur áherslu á að greiðsluþátttaka sjúklings annars vegar vegna rannsókna og annars undirbúnings vegna innlagnar á sjúkrahús og hins vegar vegna langvarandi meðferðar sem veitt er á göngudeild sjúkrahúsa án innlagnar verði skoðuð sérstaklega þar sem hún er mjög íþyngjandi fyrir sjúklinga og felur jafnvel í sér mismunun milli sjúklingahópa og meðferða. Meiri hlutinn telur mikilvægt að þessi atriði verði til skoðunar í nefnd heilbrigðisráðherra um endurskoðun á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustu sem fyrirhugað er að skili niðurstöðum á haustdögum.

Nú er séð fyrir endann á starfi þessarar nefndar og niðurstöðu því að vænta fljótlega m.a. í formi lagafrumvarps og með vísan til þessa (Forseti hringir.) segi ég nei.