135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Í 2. mgr. 39. gr. virðast vera taldir með tæmandi hætti þeir aðilar sem sjúkratryggingastofnun megi gera samninga við, þ.e. heilbrigðisstofnanir, sveitarfélög, sjálfseignarstofnanir, fyrirtæki og einstaklingar o.fl.

Það liggur fyrir að meiri hlutinn er beinlínis andvígur því að stofnunin geti í hvaða tilfellum sem er, við hvaða aðstæður sem er samið við fagfélög eða stéttarfélög.

Það eru alveg nýir tímar á Íslandi, sérstaklega þegar flokkur sem kallar sig jafnaðarmannaflokk leggst með þessum hætti svona þversum og berlega gegn því að fagfélög, stéttarfélög megi beita samtakamætti sínum í sína þágu. Þó svo að stofnunin hefði þarna heimildir til að semja við þessa aðila er ekki þar með sagt að hún þurfi alltaf og undir öllum kringumstæðum að gera það. En að banna það með beinum hætti er alveg ótrúlegur atburður og við erum þess vegna því algerlega andvíg og (Forseti hringir.) viljum að heimild komi inn til samninga við þessa aðila eins og alla aðra og því segi ég já, herra forseti.