135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:29]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég neyðist til að koma í þennan ræðustól til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu til að svara þessu bulli sem hv. þingmenn Vinstri grænna bera hér á borð. Það er enginn að veikja stéttarfélög. Við erum ekki að banna kjarabaráttu, eins og þá kjarabaráttu sem ljósmæður standa í. Þetta eru gjörsamlega ólíkir hlutir sem hér er verið að bera saman. Það sem hér er verið að gera er að bregðast við að heilar stéttir geti verið í þannig stöðu gagnvart hinu opinbera að geta sagt sig frá samningi ef samningar nást ekki.

Við skulum muna það í þessum sal þegar hjartalæknar allir með tölu fóru út úr samningi. Hver var samningsstaða ríkisins þá? Engin. Við erum að styrkja samningsstöðu ríkisins, eitt af meginhlutverkum þessa frumvarps er að gera það og þess vegna er þetta ákvæði inni.

Hversu óeðlilegt væri, og menn hljóta að sjá það, ef allir verktakar landsins sem eru að semja við Vegagerðina mundu sameinast í einu félagi? Þetta eru óeðlilegir hættir í samningum og þess vegna er verið að brjóta þetta upp með þessum hætti. En þetta kemur ekkert við kjarabaráttu eða tilvist stéttarfélags, svo það sé algjörlega á hreinu, hv. þm. Ögmundur Jónasson.