135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:39]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við teljum nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að fella nú niður úr lögum heimild til að bjóða út heilbrigðisþjónustu og einkum með tilliti til yfirlýstrar stefnu ríkisstjórnarinnar og heilbrigðisráðherra. Ég vil rifja upp að við þingmenn Vinstri grænna greiddum atkvæði gegn samsvarandi ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu fyrir rúmu ári síðan. Það er því miður ástæða til að óttast að þessi heimild verði notuð ótæpilega til þess að flýta einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og ég minni á yfirlýsingar frá því hér í gærkvöldi þegar boðuð voru aukin útboð í kjölfar þess að þessi lög verða væntanlega afgreidd á eftir og jafnframt að þar verði byrjað á heilsugæslunni. Ég skora á þingmenn að taka þessa heimild úr lögum og þó ekki væri nema til að verja heilsugæsluna okkar fyrir útboðum af þessu tagi.