135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:44]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Nú er komið að lokaafgreiðslu frumvarps til laga um sjúkratryggingar. Samþykkt þessa frumvarps er mikið framfaraspor í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Með kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu verður tryggt aukið gagnsæi í því hvernig fjármagni til heilbrigðisþjónustu er varið með því að fé fylgi sjúklingi sem þjónustunnar þarfnast. Um leið gefast auknir möguleikar á samanburði á kostnaði, gæðum og árangri einstakra meðferðaraðila í heilbrigðisþjónustu. Það er trú mín að með þessu skrefi gefist tækifæri til að gera góða heilbrigðisþjónustu enn betri um leið og hlúð er að hinu félagslega heilbrigðiskerfi sem við búum við og viljum standa vörð um þar sem kostnaður við heilbrigðisþjónustu er að mestu greiddur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Um leið er ítrekað að staðið er vörð um gildi eins og jafnræði, aðgengi, gæði og öryggi sjúklinga á sama tíma og gerð er krafa um hagkvæma nýtingu fjármuna almennings sem varið er til heilbrigðisþjónustu.

Að lokum vil ég þakka hv. heilbrigðisnefnd gott samstarf og góða vinnu innan nefndarinnar við vinnslu frumvarpsins frá því að það var lagt fram í vor. Jafnframt vil ég þakka starfsmönnum nefndasviðs, sérfræðingum heilbrigðisráðuneytisins, gestum og umsagnaraðilum fyrir framlag þeirra til þessarar vinnu og að lokum vil ég óska þjóðinni til hamingju með það skref sem hefur verið tekið í dag.