135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:09]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli hér á þingi sem og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Vissulega eru það ný tíðindi að heyra um alvarlegar aukaverkanir sem af þessu lyfi geta hugsanlega stafað. Hins vegar er alveg ljóst að skapaðar voru miklar væntingar hjá MS-sjúklingum um að 50 einstaklingar mundu fá meðhöndlun á þessu ári. Það er brýnt að heilbrigðisyfirvöld stundi náið samráð við hagsmunagæslusamtök MS-sjúklinga. Mér sýnist á fréttaflutningi að samræður á milli þessara hópa, þ.e. Landspítalans annars vegar og MS-sjúklinga hins vegar hafi ekki verið nægilega reglubundnar og í raun er mjög átakanlegt að sjá unga einstaklinga á mínum aldri sem eiga um mjög sárt að binda af þessum sjúkdómi. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að halda vel á þessu máli í samráði við Landspítalann því hér er um mikilvægt mál að ræða og vissulega hafa yfirvöld gefið miklar væntingar gagnvart þessum hópi. Það er óumdeilt.