135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Vissulega olli mér vonbrigðum að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði, að verið væri að tala um alvarlegar aukaverkanir vegna þess að ég taldi mig hafa upplýsingar um að læknisfræðin væri komin í raun nokkuð fram hjá því vandamáli og að við værum komin á beinu brautina hvað varðar notkun þessa lyfs. En ég dreg ekki í efa að hæstv. ráðherra fari þar með rétt mál, að þarna sé alvarlegt mál á ferðinni sem auðvitað þarf að taka tillit til. En ég treysti mér ekki út í læknisfræðilega umfjöllun um þetta mál.

En vegna þess, eins og hér hefur komið fram, að svo miklar væntingar hafa skapast hjá þessu sjúka fólki þá er ákaflega mikilvægt að þannig sé haldið á málum að fólkið sé upplýst um hvað sé fram undan og hvenær það megi eiga von á að fá þjónustu vegna þess að óvissan er mikil. Mér er kunnugt um það að fólk sem er þó búið að fá einhvern ádrátt um að fá þjónustu í ár veit ekki hvort svo geti orðið vegna þess að það er svo langt liðið á árið.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér í þessu máli eins og hann getur. Miðað við það sem fram kom hjá honum er þetta ekki spurning um fjármuni heldur spurning um hvernig megi leysa þetta læknisfræðilega. Alla vega vona ég að þessi umræða verði til þess að þeir sjúklingar sem hér um ræðir fái frekari upplýsingar og geti þá vonandi trúað því og treyst að þeir fái þjónustu á þessu ári sem hefur verið lofað og svo að (Forseti hringir.) á næsta ári verði hægt að halda áfram á þessari braut.