135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

skuld ríkisins við verktakafyrirtækið Impregilo.

655. mál
[15:19]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr:

1. Hver er heildarupphæð skuldar ríkisins við verktakafyrirtækið Impregilo orðin í dag að meðtöldum dráttarvöxtum, samanber dóm Hæstaréttar 20. september 2007?

Impregilo SpA, útibú á Íslandi hefur höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur íslenska ríkinu til endurgreiðslu oftekinna skatta í framhaldi af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 523/2006, Impregilo SpA, útibú á Íslandi gegn íslenska ríkinu sem kveðinn var upp þann 20. september 2007. Í málinu er krafist endurgreiðslu oftekinna skatta að fjárhæð kr. 1.230.708.381 kr. auk vaxta og málskostnaðar.

2. Hverju sætir að skuldin hefur ekki verið gerð upp eða a.m.k. borgað inn á hana til að draga úr kostnaði vegna dráttarvaxta?

Dómur Hæstaréttar fjallaði um skattskyldu og staðgreiðsluskyldu vinnuveitanda annars vegar og launagreiðanda hins vegar þegar um var að ræða starfsmenn sem ráðnir höfðu verið hingað til lands af erlendum starfsmannaleigum. Meginmálið í niðurstöðu Hæstaréttar var að dómurinn taldi það alveg ljóst að Impregilo væri vinnuveitandi þessara erlendu starfsmanna og þeir því skattskyldir hér á landi. Hins vegar taldi Hæstiréttur að það væru hinar erlendu starfsmannaleigur en ekki Impregilo sem almennt teldust launagreiðendur umræddra útleigðra starfsmanna og bæri því Impregilo ekki almennt skylda til að standa skil á staðgreiðslu vegna launa þeirra. Þannig gekk dómurinn ekki út á endurgreiðslu af ofgreiddri staðgreiðslu heldur fjallaði hann um skattskylduna og staðgreiðsluskylduna sem slíka.

Þrátt fyrir að niðurstaða hæstaréttardómsins hafi verið sú að starfsmannaleigurnar teldust launagreiðendur hinna erlendu starfsmanna er ljóst að hluti af umræddum launum tilheyrði Impregilo sem launagreiðanda. Gögn málsins eru ekki skýr hvað þetta varðar. Í ljósi þessa ágreinings um endurgreiðslukröfuna hefur ekki verið samið um greiðslu við Impregilo. Þannig hefur ekki verið litið svo á að um sé að ræða tafir á uppgjöri skattskuldar. Endurgreiðslukrafan er óljós auk þess sem ekki er talið að um eiginlega staðgreiðslu sé að ræða heldur skattgreiðslu sem stefnandi ber ábyrgð á sem vinnuveitandi skv. 3. mgr. 116. gr. tekjuskattslaga. Þannig kann umrædd skuld ríkisins við Impregilo að vera óveruleg og jafnvel lítil sem engin.

3. Hverjar voru ástæður þess að fjármálaráðuneytið tók uppgjör málsins úr höndum ríkisskattstjóra?

Fjármálaráðuneytið hefur ekki tekið uppgjör málsins úr höndum ríkisskattstjóra. Ráðuneytið vinnur að málinu í góðri samvinnu við skattkerfið og þar á meðal embætti ríkisskattstjóra. Málið er nú í eðlilegum farvegi hjá dómstólum þar sem ágreiningur er uppi um endurgreiðslukröfuna.