135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:37]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu máli. Það er alveg rétt að það er ærið tilefni til að ræða stöðu landbúnaðarins. Það hefur slegið mjög í bakseglin af ýmsum ástæðum og í flestum tilvikum er um að ræða ytri aðstæður sem hafa verið að breytast okkur mjög í óhag. Hv. þingmaður nefndi nokkur þeirra atriða eins og hækkun áburðarverðs sem hefur skollið yfir landbúnaðinn með ofurþunga og sömuleiðis væri hægt að tiltaka hækkun á fóðurkostnaði og síðast en ekki síst þann grimmilega fjármagnskostnað sem er allt lifandi að drepa. Auðvitað sjá það allir að ekkert atvinnulíf, hvorki landbúnaður né annað, getur búið við þennan sligandi fjármagnskostnað og þess vegna skiptir mestu máli í þessu sambandi að ná þeim tökum á efnahagsmálunum að það verði til þess að vaxtastigið lækki, að Seðlabankinn geti hafið vaxtalækkunarferli sem leiði til þess að fjármagnskostnaður í landinu fari lækkandi.

Það kom mjög skýrt fram t.d. á þeim fjölmenna bændafundi sem haldinn var í Dalabúð og hv. þingmaður nefndi að það var eitt af því sem stóð upp úr þeim sem þar töluðu, ekki síst fulltrúum afurðastöðvanna, að þetta væri mjög íþyngjandi fyrir rekstur þeirra og mjög erfitt fyrir þær. Ég nefndi á þeim fundi og vil ítreka það hér að ég teldi að það kæmi mjög vel til greina sem þar var nefnt, vegna þess að bændur hafa rætt það við mig hvort ekki væri hægt að breyta samningum við sláturleyfishafa um vaxta- og geymslugjöld á þann hátt að greiðslum verði lokið í janúar nk. til þess að flýta til muna greiðslunum frá því sem núna er, það mundi muna allnokkru. Ég tel og lýsti því yfir á þessum fundi að ég væri jákvæður fyrir þessu. Ég held að þetta sé hlutur sem við þurfum að ræða núna frekar við afurðastöðvarnar og bændur og lýsi mig reiðubúinn til að stuðla að því eftir því sem hægt er og tel að það eigi að vera hægt að gera það og þetta gæti verið liður í því m.a. að reyna að lækka fjármagnskostnaðinn í afurðastöðvunum sem auðvitað gæti skilað sér til bændanna jafnframt.

Í framhaldi af þessum fundi voru síðan sendar til mín nokkrar ályktanir sem gerðar voru í framhaldi af þessu og m.a. var tekið undir það sem ég nefndi á fundinum, hvort ekki væri skynsamlegt að hefja núna athugun á því hverju þessi hagræðing í sláturgeiranum hefði skilað til landbúnaðarins og bændanna. Í þessum ályktunum sem mér hafa borist núna er tekið undir þetta og ég lýsi mig reiðubúinn til þess að við stöndum að þessu með bændum og afurðastöðvunum og ég held að það sé skynsamlegt á þessu augnabliki að við efnum til funda með þessum hagsmunaaðilum um það hvernig best verði að þessu staðið.

Vegna þess að það er ekki síst vandi sauðfjárbænda sem við ræðum hér þá hlýtur það að vera grundvallarstefna þeirra eins og annarra að sækja sem mestan hluta tekna sinna til sölu afurðanna og þess vegna skiptir öllu máli hvernig þau mál þróast. Það fer ekki á milli mála að það urðu mikil vonbrigði þegar fyrstu tölurnar um hækkanir á afurðaverði voru kynntar af hálfu afurðafyrirtækjanna. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að staða afurðasölufyrirtækjanna, sláturhúsanna, er afar þröng og ekki hægt að búast við að þau geti endalaust tekið á sig kostnaðarhækkanir eða velt þeim út í verðlagið. Staða þeirra var því ekkert öfundsverð. Bændur höfðu farið af stað með óskir um að viðmiðunarverðið mundi hækka um 27%, ef ég man rétt, á milli ára en upphaflegu tölurnar sem komu frá fyrstu sláturleyfishöfunum hljóðuðu upp á u.þ.b. 15% hækkun. Síðan hefur hins vegar orðið allnokkur þróun og samkeppnin á milli þeirra hefur m.a. leitt það af sér að hækkanir verða á bilinu 18–20% rúmlega og hækkanir á útflutta kjötinu um 29%. Þetta telur auðvitað en ég er ekki að gera lítið úr því að vandinn er engu að síður til staðar.

Ég held líka að það sé ástæða til að nefna annað sem kom mjög skýrt fram á fundinum í Dalabúð og kemur líka fram í ályktunum bændanna sem ég nefndi áðan og það varðar stöðuna á smásölumarkaði. Ég hef áður sagt að ég tel að þetta sé hvað alvarlegasta ábendingin sem komið hefur fram af hálfu bænda og ýmissa afurðastöðva þeirra. Það vill svo til að við höfum komið upp miklu kerfi og öflugri stofnun sem á að fylgjast með því hvernig viðskiptaháttum í landinu er háttað. Bændur hafa bent á að sú skilaskylda sem mér er sagt að viðgangist á innlendum framleiðsluvörum sé ósanngjörn gagnvart innlendum framleiðendum. Þegar svona alvarlegir hlutir eru færðir í tal með þeim hætti sem gert hefur verið trúi ég ekki öðru en að menn skoði þessa hluti af alvöru og þar með talið viðeigandi stofnanir og yfirvöld.

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari stöðu. Hv. þingmaður spurði sérstaklega um aðkomu Byggðastofnunar. Ég hef rætt þessi mál við forsvarsmenn Byggðastofnunar, m.a. með það í huga sem hv. þingmaður nefndi, hvort stofnunin gæti með einhverjum hætti komið þannig að málum, eins og hún hefur gert einhvern tíma áður, að það gæti stuðlað að lækkun fjármagnsgjalda. (Forseti hringir.) Þessi mál eru hins vegar á algjöru frumstigi en orð eru þó a.m.k. til alls fyrst.