135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:44]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Hér ræðum við um stöðu landbúnaðarins og matvæla honum tengd. Þetta er gríðarlega mikið umfjöllunarefni og verður ekki gert skil í lítilli utandagskrárumræðu.

Það er alveg ljóst að mikil samþjöppun hefur átt sér stað í íslenskum landbúnaði og ein mesta samþjöppunin hefur orðið í sláturhúsageiranum og sú samþjöppun virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Æ fleiri gera kröfur um það og benda á það að bændur séu allt of fjarri neytendum, að það sé allt of langt frá bóndanum og þeirri vöru sem hann framleiðir til neytandans. (Gripið fram í.) Við þurfum að finna út leiðir sem stytta þetta bil og gera það að verkum að bændurnir fá meira fyrir vöru sína og jafnvel að hægt verði að lækka hana til neytenda. Ef allt bírókratíið sem er í kringum þetta og kringum verslunina minnkaði ættu að vera meiri vonir í þessu.

Það er líka dapurlegt að hugsa til þess ef sláturhúsamenningin á Íslandi er orðin þannig, ef svo má að orði komast, að hún stendur bara yfir í tvo, þrjá mánuði, eins og svo sem verið hefur, og flytja þarf inn fjölda fólks til að sinna þeim málum og ef enginn íslenskur bóndi kemur að þeim þá glatast þessi þekking hjá stéttinni og við þurfum að gæta þess. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að við þurfum að athuga hvort ekki sé hægt að auka heimaslátrun og gefa bændum meira tækifæri á því að hafa beint samband við neytendur og koma vöru sinni meira þannig á markað.

Það má nefna eitt í þessu sambandi (Forseti hringir.) að ég gleðst yfir því að menn eru farnir að hafa áhuga á því að koma upp nýrri áburðarverksmiðju á Íslandi sem ég tel að geti komið (Forseti hringir.) sem gott innlegg í þessa umræðu.