135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:49]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór hér yfir það hvernig háir vextir, hækkanir á olíuverði og áburði og lágt afurðaverð hafa haft áhrif á stöðu bænda og ég ætla að leyfa mér að vitna í þá grein sem hann nefndi hér eftir Kára Gautason, 19 ára bóndason úr Vopnafirði. Það er ljóst að honum þykir staðan heldur slæm þegar hann segir:

„Það er verið að taka meðvitaða ákvörðun um að byrja fyrir alvöru jarðarför íslenska sauðfjárbóndans. Sú litla nýliðun sem þó er í stéttinni í dag mun gjörsamlega þorna upp þegar útgreitt verð er ekki upp í kostnað. Það tekur enginn ungur maður ákvörðun um að verða ánauðugur þræll.“

Það er nokkuð ljóst að ef svona hugur er í ungum bændum má eitthvað fara betur.

Ég tel nokkuð víst að við eigum auðlind í íslenskum landbúnaði og þar eigum við sóknarfæri. Við eigum t.d. sóknarfæri þegar kemur að lífrænum landbúnaði, við eigum sóknarfæri þegar kemur að verkefnum á borð við Beint frá býli og einmitt eins og hv. þm. Karl V. Matthíasson nefndi um heimaslátrun og fleiri tækifæri.

En við megum ekki heldur ógna þeirri stöðu, t.d. með því að taka þá áhættu að hér muni fjölga búfjársjúkdómum eins og hættan er ef nýtt frumvarp um innflutning á hráu kjöti verður að veruleika. Hér hefur sjúkdómastaðan verið hreint einstök, hún hefur verið einstaklega góð þannig að auðvitað skiptir máli að við stígum þar varlega til jarðar. Þar tek ég reyndar undir með bændum á þessum sama fundi í Dalabyggð sem ályktuðu um það líka svo að því sé til haga haldið.

Það eru hagsmunir neytenda hvar sem þeir búa í heiminum að geta borðað matvæli af sínu svæði. Það eru hagsmunir allra að búa við matvælaöryggi, að íslenskur landbúnaður sé öflugur og það eru auðvitað hagsmunir umhverfisins líka að matvæli séu ekki flutt yfir hálfan hnöttinn. Þar tek ég undir með 93,8% af íslensku þjóðinni sem segja samkvæmt viðhorfskönnun sem gerð var 2007 að það skipti miklu máli að hér verði stundaður landbúnaður til framtíðar. Ef ástandið er svona eins og við sjáum skiptir auðvitað máli (Forseti hringir.) að gripið verði til aðgerða.