135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[16:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hæstv. ráðherra fyrir svör og þingmönnum fyrir þátttöku í henni.

Ég vil segja við hv. þm. Kjartan Ólafsson að ég tel að allar greinar íslensks landbúnaðar hafi þróast, þó vissulega að hluta til á mismunandi hátt og á mismunandi forsendum, enda eru þær um sumt ólíkar þó að þær tilheyri allar sömu búgreininni. Mér finnst ómaklegt að ýja að því að einhverjar sérstakar greinar íslensks landbúnaðar hafi skorið sig þar úr. Ég bið þá hv. þingmann næst að gera betur og segja þá skýrt hvað hann á við. Á hann við vanda sauðfjárræktarinnar eða jafnvel bæði sauðfjárræktarinnar og mjólkurframleiðslunnar, að þær greinar hafi ekki þróast, það hafi engin tæknivæðing orðið í sauðfjárrækt? Það einfaldlega stenst ekki skoðun.

Ég hefði kosið að fá fleiri fréttir í ræðu hæstv. ráðherra. Það var fyrst og fremst eitt handfast í máli hans, og það er vissulega jákvætt, að það komi til greina að endurskoða fyrirkomulag á greiðslum vaxta og geymslugjalda og flýta uppgjörinu. En ég minni hæstv. ráðherra á að það er 10. september. Göngur og réttir standa yfir. Bændur taka næstu daga eða næstu vikur ákvarðanir um ásetning sinn, a.m.k. sauðfjárbændur, hvort þeir bregði búi. Ég held að það þoli ekki mikla bið að stjórnvöld geri upp við sig hvort þau ætli á einhvern hátt að koma til móts við greinina þannig að um það muni á þessu hausti og fyrir vetur. Annars er veruleg hætta á því að það gerist, a.m.k. í einhverjum mæli, sem bændur sjálfir óttast mest, að það verði verulegur flótti úr greininni og algjör brestur í nýliðun.

Ég bendi á þann möguleika að virkja Byggðastofnun til þess að fara í vaxtakostnaðinn. Hæstv. ráðherra sagði sjálfur og allir taka undir það með honum að það lifi ekkert atvinnulíf við þessa okurvexti og allra síst þeir sem síst mega missa sín, þ.e. þeir sem nýlega hafa fjárfest og komið undir sig fótunum og hafið atvinnurekstur, og því þá ekki að gera eitthvað í málinu?

Ég nefni líka flutningskostnaðinn af því að hér er hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller. Hvar er það mál að damla í nefnd? Það væri stórkostlega mikilvægt fyrir matvælaiðnaðinn og landbúnaðinn í heild (Forseti hringir.) ef kosningaloforðin um að lækka flutningskostnað væru efnd þó að ekki væri nema að litlu leyti. Hér þarf að taka til hendinni, frú forseti. (Gripið fram í.)