135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

659. mál
[16:10]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum, þ.e. við fyrri hluta spurningarinnar um hvenær gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verði boðin út, er einfaldlega næsta sumar.

Svar við spurningunni um hvort gerð nýs vegar um Dynjandisheiði verði boðin út samhliða er nei, ekki er það svo. Það gengur ekki svo vel að við getum gert það og ég skal fara aðeins betur út í þetta svar.

Eins og hv. þingmaður gat réttilega um voru á gildandi samgönguáætlun árin 2011–2014 ætlaðar 3.800 milljónir til gerðar Dýrafjarðarganga. Með flýtiframkvæmdum ríkisstjórnarinnar frá 10. júlí í fyrra var þetta fært fram um tvö ár eins og hv. þingmaður gat um. Á árinu 2009 eru því að mig minnir 100 milljónir inni og árið 2010 eru 900 milljónir og restin er svo á árunum 2011 og 2012, eins og hefur komið fram hefur alltaf verið áætlað að ljúka verkinu 2012. Við þetta verður vonandi — og verður ekkert vonandi — hægt að standa.

Eftir mikla og ágæta umræðu á fjórðungsþingi Vestfirðinga sl. föstudag, m.a. um forgangsröðun sem ég ætla ekkert að fara frekar í núna nema menn vilji, þá sagði ég að ég teldi að við ættum þá frekar að gefa í hvað varðar Dýrafjarðargöng til þess að geta boðið þau út þannig að við náum því að halda samfellu í jarðgangagerð á Vestfjörðum í framhaldi af því að búið væri að sprengja og bora og verið að vinna við Bolungarvíkurgöngin en sú ánægjulega framkvæmd er einmitt komin í gang.

Þetta er það sem segja má um Dýrafjarðargöngin. En hv. þingmaður spyr líka út í Dynjandisheiði og svar við því er aðeins ítarlegra. Á fjórðungsþinginu komu fram ánægjuleg gögn frá Vegagerðinni og í samgönguáætlun fjórðungssambandsins komu fram frekari upplýsingar um Dynjandisheiðina. Það sem við vitum er að 1.300 milljónir eru inni, voru hugsaðar inn á langtímaáætlun samgönguáætlunar — sem við skulum svo rifja aðeins upp að hefur ekki verið samþykkt — þar voru 1.300 milljónir á síðasta tímabilinu, þ.e. 2015–2018.

Nú er hins vegar komið í ljós eftir athuganir Vegagerðarinnar, m.a. fyrir stjórn fjórðungssambandsins, að heildarkostnaður við að byggja upp veg yfir Dynjandisheiði eru 4 milljarðar og 100 milljónir kr., 4.100 millj. kr., þannig að það vantar 2.800 milljónir kr. upp á það verk. Í skýrslu Vegagerðarinnar sem er ákaflega greinargott plagg eins og allt sem kemur frá Vegagerðinni, kom líka fram, svona örlítið til upplýsingar líka, að hugmyndir eins og fjórðungssambandið hefur sett fram um göng undir Dynjandisheiði sem yrðu 12 km löng kosti 14 milljarða kr. Þá upphæð höfum við ekki þannig að við erum ekkert að tala um það. Nóg verkefni eigum við fram undan við að útvega hinar 2.800 millj. kr. sem við þurfum í Dynjandisheiði til þess að klára þetta verk almennilega og fá heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðisins og þá heilsárssamgöngur í hringtengingu Vestfjarða, eins og þarna er.

Þetta er því það verkefni sem við höfum að vinna í vetur þegar við förum í gegnum samgönguáætlun og það allt saman og ég vil vona og trúa því að við munum öll reyna að sameinast um það að finna þennan flöt á þessu máli, um styttingu o.fl. sem er um að ræða en vonandi tekst það. En til þess að fá fulla nýtingu Dýrafjarðarganga þarf náttúrlega að vera heilsársvegur um Dynjandisheiði þannig að þetta allt saman virki almennilega saman, og það er auðvitað það verkefni sem bíður okkar að vinna í og við vitum að það er stórt og mikið verkefni.

Rétt í lokin, virðulegi forseti, vegna þess að það eru ýmsar framkvæmdir í gangi á Vestfjörðum og ýmsar fyrirhugaðar sem fara vonandi að detta í útboð þá held ég að það megi taka undir það sem sagt var varðandi flýtiframkvæmdirnar í fyrra að þegar því verki verður lokið verður loksins hægt að fara að tala um nútímalegar samgöngur á þessu svæði eins og kveðið var á um í fréttatilkynningu sem m.a. var ættuð úr Vegagerðinni. Það var ákaflega vel að orði komist, við þurfum að sjálfsögðu að búa til nútímalega vegi á þessu svæði og að því er verið að vinna.