135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

659. mál
[16:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Af þeim er ljóst að útboð fer fram á næsta ári, næsta sumar sagði ráðherrann og þá má vænta þess að framkvæmdir geti hafist fyrir árslok. Það er nokkurn veginn í samræmi við viðbótina sem samþykkt var á samgönguáætlun í vor þar sem gert var ráð fyrir að framkvæmdir hæfust að einhverju marki í byrjun árs 2010. Ég skil því svar hæstv. ráðherra þannig að hann sé heldur að reyna að flýta meira upphafi framkvæmda við göngin en gert er ráð fyrir í þeirri viðbót sem samþykkt var.

Í öðru lagi er það Dynjandisheiðin og vegagerð um hana. Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra er gert ráð fyrir og tekin um það ákvörðun að ráðast í vegagerð fremur en aðrar úrbætur sem yrðu þá að vera jarðgöng. Ég geri ekki athugasemdir við þá ákvörðun. Kostnaðurinn við að gera nýjan veg um Dynjandisheiði er talinn vera um 4 milljarðar kr. sem er langtum minna en kostnaður við að gera jarðgöng, fullkomin göng sem væru besta lausnin. Hún kostar um 14 milljarða kr. og það er of mikill peningur. Við ráðum ekkert við það að verja svo miklu fé á svo stuttum tíma á þessu svæði. Við eigum ekki að reisa markið svo hátt að þessu sinni, heldur vinna að vegagerð og kappkosta að hún geti farið fram samhliða jarðgangagerðinni þannig að þegar göngin verða tilbúin verði vegurinn tilbúinn líka. Að öðrum kosti nýtast göngin ekki til fullnustu. Það er árið 2012 sem gert er ráð fyrir að framkvæmdum við göngin ljúki og ég vænti þess að ráðherra vinni að því ásamt Alþingi (Forseti hringir.) að tryggja að þetta markmið náist þegar við göngum frá vegáætlun seinna á þessum komandi vetri.