135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

659. mál
[16:19]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta en ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og þeim þingmönnum öðrum að ræða það. Eins og kom fram hjá hv. þm. Karli V. Matthíassyni var það ákaflega gleðileg stund fyrir Vestfirðinga, og Íslendinga auðvitað alla, þegar við sprengdum fyrstu formlegu sprenginguna í Bolungarvíkurgöngum á fimmtudaginn, fyrir tæpri viku. Vonandi getum við haldið áfram þessu prógrammi sem búið hefur verið til sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson talaði um, þ.e. fern jarðgöng sem er verið að byrja á. Það er auðvitað stórt mál.

Þetta er í takt við það sem við sjáum í samgönguáætlun og það sem við erum að vinna að. Ég leyfi mér að halda því fram, virðulegi forseti, að aldrei í sögu Íslands hafi jafnmiklum fjármunum verið varið til samgöngumála og við erum að gera nú og næstu tvö ár. Veitir sannarlega ekki af, segja sumir. Það er alveg hárrétt og ég hef margoft tjáð mig um vegina eins og á sunnanverðum Vestfjörðum og svo þá kafla sem við erum að tala um hér, Dynjandisheiði, svo Hrafnseyrarheiði og Dýrafjarðargöng og allt þetta þannig að þarna þarf sannarlega að taka vel á.

Ég tek undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fyrirspyrjandi sagði, það verður verkefni okkar í vetur að búa til samgönguáætlun. Við vitum nokkurn veginn úr hvaða peningum við höfum að spila og við þurfum að raða þessu niður dálítið vel og sjá til þess að þeir nýtist. Til þess að Dýrafjarðargöng sem á að opna í síðasta lagi 2012 nýtist fullkomlega þarf að gera betri veg yfir Dynjandisheiði í framhaldi af því eða samhliða, hvernig sem það er. Þetta er verkefni sem bíður okkar.

Ég ætla ekki að tala meira um þetta núna en vek aðeins athygli á því að miðað við þessar nýju kostnaðartölur Vegagerðarinnar sem komu fram höfum við 1.300 millj. en verkið mun kosta a.m.k. 4,1 milljarð og það er auðvitað dálítið gat sem okkur ber að brúa. Ég ítreka þakkir fyrir þessa fyrirspurn.