135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

örorkumats- og starfsendurhæfingarnefnd.

657. mál
[16:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau náðu því að ekki nefndi hæstv. ráðherra neina sérstaka tímasetningu um það hvenær þessi nefnd mundi ljúka störfum. En hins vegar er það rétt sem hann benti á að hér er um mjög vandmeðfarið mál að ræða. Við eigum því ekki að ana að neinu heldur eigum við að hvetja til þess að menn fari mjög ítarlega yfir þessi mál og skili þar af leiðandi af sér betra starfi en ella. Ég bind miklar vonir við að þessi nefnd muni stuðla að miklum framförum í þessum málaflokki og því mikilvægt að menn taki sér góðan tíma í þetta.

Ég held reyndar að það markmið sem menn settu sér að þessi nefnd mundi skila af sér um áramótin sé óraunhæft því að menn eiga eftir að innleiða heilmiklar kerfisbreytingar þar. Það er mjög svifaseint. Ef við gerum ráð fyrir því að þessi nefnd muni ekki skila af sér um næstu áramót heldur einhverjum mánuðum síðar er mikilvægt fyrir alla aðila að vita hvort ríkisstjórnin og forsætisráðherra ætli sér þá að framlengja þetta 100 þús. kr. frítekjumark sem hefur verið tengt við starf nefndarinnar með óbeinum hætti. Það er mikilvægt því að ég þarf ekki að fara yfir það með hæstv. forsætisráðherra að öryrkjar eru svo sem ekki með breiðustu bökin í samfélaginu og á miklum verðbólgutímum er örugglega hart í ári á mörgum bæjum þar. Það er mikilvægt að þessi hópur fái þá fullvissu um að menn ætli ekki að afnema frítekjumarkið um næstu áramót heldur að það verði framlengt þangað til þessi nefnd hefur lokið þeim mikilvægu störfum sem hún á að sinna og skilar vonandi fyrr en síðar.