135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:32]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Ég spyr um afstöðu Samfylkingarinnar til mannréttindabrota á tveimur sjómönnum frá Tálknafirði. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að þessir tveir sjómenn eigi að fá skaðabætur frá íslenska ríkinu fyrir mannréttindabrot sem á þeim hafi verið stunduð.

Ég ætla líka að spyrja þingflokksformann Samfylkingarinnar hvort áfram eigi að brjóta mannréttindi á íslenskum sjómönnum og enn fremur, í ljósi þess að atvinnuréttur og atvinnufrelsi hefur verið brotið á okkur, mér og mínum líkum úr sjómannastétt, hvað Samfylkingin ætli að gera í þessum málum.