135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:33]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spyr mig út í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í sjálfu sér liggur fyrir afstaða mannréttindanefndarinnar. Þeirri afstöðu hefur verið svarað og gerð mjög skýr grein fyrir af hálfu stjórnvalda og ég veit ekki annað en að nefndin hafi í raun fallist á sjónarmið stjórnvalda, þ.e. að nefndin telji viðbrögðin þess eðlis að þau fullnægi því sem nefndin gerir kröfu til og lýsi ánægju sinni með að það eigi að skoða áhrif kerfisins eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur marglýst yfir, og fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að setja eigi á fót nefnd til að skoða áhrif kerfisins á sjávarbyggðir. Ég veit að mannréttindanefndinni hefur verið gerð grein fyrir þessu og ég veit einnig að hún hefur lýst ánægju sinni með það og vill fá að fylgjast áfram með þessu.

Í svari stjórnvalda til mannréttindanefndar er bótakröfu hafnað og ég hef ekki upplýsingar um það að mannréttindanefndin hafi á nokkurn hátt gert kröfu til þess í sínum viðbrögðum að þær greiðslur ættu sér stað, eða hvaða greiðslur. Þess ber einnig að geta að í eina skiptið þar sem lögmæti forsendna kvótakerfisins hafa verið bornar undir dómstóla, í Vatneyrardómnum svokallaða, lýsti Hæstiréttur því yfir að forsendurnar væru lögmætar. Þegar af þeirri ástæðu er nánast útilokað fyrir stjórnvöld að greiða bætur, enda mundi það þýða að stjórnvöld (Forseti hringir.) væru að lýsa því yfir að kerfið væri ólögmætt.