135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:36]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það hefur ekkert verið snúið til baka með álitið frá mannréttindanefndinni sem skilaði áliti í desember, mig minnir 12. desember. Hún hefur ekkert breytt því eða dregið til baka. Það á samkvæmt mannréttindanefndarálitinu að borga þessum sjómönnum bætur og það verður að gera það. Mér sýnist að Samfylkingin ætli að láta það yfir sig ganga að hunsa bæturnar sem þessir tveir sjómenn eiga að fá og ekki að borga þær. Það er auðvitað grafalvarlegt mál — ég tala nú ekki um flokk sem þykist vera jafnaðarmannaflokkur — að brjóta mannréttindi með þessu og virða ekki álit mannréttindanefndarinnar.

Það er ekkert sem segir að mannréttindanefndin muni ekki halda áfram að fylgjast með gjörningum íslenskra stjórnvalda. Hún mun eflaust gera það og gera athugasemdir við þessi vinnubrögð. Þetta er skammarlegt og flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku, sem á náttúrlega ekkert skylt við jafnaðarmennsku, ætlar að halda áfram að brjóta mannréttindi. Það er þetta sem kannski þurfti að koma fram, við stöndum frammi fyrir því hér að þeir tveir flokkar sem eru í ríkisstjórn og mynda þessa ríkisstjórn eru ákveðnir í því að halda áfram að brjóta mannréttindi. Það verður aldrei liðið. Menn þurfa ekki að halda að þeir komist upp með að brjóta mannréttindi til langs tíma. Þeir hafa komist upp með það lengi og snúið út úr íslensku réttarkerfi eins og þegar stjórnvöld sneru út úr dómi Hæstaréttar í svokölluðu Valdimarsmáli. Það er auðvitað ekki boðlegt. Þarf mannréttindanefnd til að sýna Samfylkingunni hvað er rétt og hvað rangt? Þarf einhverja mannréttindanefnd til að sýna henni og kenna hvað er rétt (Forseti hringir.) eða rangt?