135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:48]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka það traust að ætla mér að svara og skýra út ólíkar yfirlýsingar úr fjölmiðlum varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég get aðeins sagt það að málið hefur ekki hlotið sérstaka umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd eins og hv. þingmaður veit, en ég hef ekki heyrt neinar útgáfur frá ríkisstjórninni um Íbúðalánasjóðinn annað en að við ætlum að koma til móts við þær kröfur sem ESA hefur gert og hafa legið fyrir í langan tíma, þ.e. að innan Íbúðalánasjóðs verði skilið á milli félagslegra og svokallaðra samkeppnis- eða almennra lána.

Hæstv. ráðherra félagsmála hefur ítrekað að þessir lánaflokkar verði báðir í Íbúðalánasjóði. Þá hugmynd styð ég og tel gríðarlega mikilvægt að við stöndum einmitt vörð um að Íbúðalánasjóður verði áfram rekinn með svipuðum hætti og verið hefur að því gefnu að komið verði til móts við þær ýtrustu kröfur ESA sem lagðar hafa verið fram.

Eftir liggur það vandamál að skilgreina félagslegu lánin, hvar mörkin liggja hvað varðar tekjur og eins varðandi svæði. Það er mikilvæg umræða sem verður að eiga sér stað hér í þinginu og væntanlega í hv. félags- og tryggingamálanefnd þegar þar að kemur. Ég tek aðeins undir það sem liggur í orðum fyrirspyrjanda, það er mikilvægt að verja Íbúðalánasjóð, það hefur sýnt sig að hann er nauðsynlegur á markaðnum eins og er og ekki eru áætlaðar neinar stórbreytingar á honum. Þessar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins hafa ekki komið til umræðu neins staðar en sjálfur tel ég óráðlegt að fara eftir þeim hugmyndum.