135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[11:01]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið að það eigi ekki að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs frá því sem nú er. Sjóðurinn hefur þann mikla kost að um hann gilda almennar og gegnsæjar reglur sem eru eins fyrir alla án tillits til búsetu. Það eru reglur sem við vitum ekki og getum ekki verið viss um að gildi í viðskiptabönkunum, miklu fremur liggja fyrir nokkrar upplýsingar sem rökstyðja að svo hafi ekki verið, sérstaklega á árunum 2004–2005 þegar viðskiptabankarnir voru sem mest í íbúðalánunum. Það lá t.d. fyrir skjalfest að ákveðin svæði á landinu gátu ekki fengið íbúðalán, fólk sem þar bjó gat ekki fengið lán í bönkunum, fékk bara nei.

Kerfið sem við notum er almennt og það er sjálfbært í þeim skilningi að það stendur undir sér og það skilar verulegum hagnaði og er ekki íþyngjandi fyrir ríkissjóð en það er samtrygging að því leyti að þar eru allir fyrir einn og sjóðurinn gerir ekki upp á milli lántakenda eftir efnahag ef þeir standast almennar reglur. Það er mikill kostur. Þetta er ódýrasta kerfið sem hægt er að hafa til að tryggja öllum almenn íbúðalán, ódýrasta kerfi sem hægt er að hugsa upp og kostar ríkissjóð ekkert en ríkisábyrgðin er nauðsynleg til að tryggja lægri vexti. Vilji menn breyta þessu og afnema ríkisábyrgðina spyr ég: Hvers vegna? Fyrir hvern er það? Það er bara til þess að gera stöðu sumra lántakenda verri en hún er. Hvaða félagslegu sjónarmið mæla á móti því að hafa það óbreytt? Er það svo að Evrópusambandslöndin sem sjálf eru með ríkisábyrgð á sínum viðskiptabönkum, eins og í Bretlandi og Danmörku, ætli sér að fara að bregða fæti fyrir íslenskan íbúðalánasjóð? (Forseti hringir.) Ætla menn hér á landi að vera kaþólskari en páfinn?