135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

fundarstjórn.

[11:06]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég vil þá bara vekja athygli á því að eins og þetta hefur verið lagt upp hafa menn getað óskað eftir því við forseta strax að morgni dags að taka til máls undir liðnum um störf þingsins og beina fyrirspurn þess vegna til einhvers ákveðins eða jafnvel ekki, eins og gerðist í þessari umræðu þegar einn hv. þingmaður tók upp og vakti máls á málefni sem ekki var sérstaklega beint til neins annars þingmanns. Það er svo sem allt í lagi með það en ég velti þá fyrir mér hvort menn geti með sama hætti, um leið og þeir verða þess áskynja að eitthvert tiltekið málefni eigi að ræða undir þessum lið, óskað eftir því fyrir fram að komast á mælendaskrá undir þeim sama lið.

Bara sem dæmi um þetta hefði ég hugsanlega í morgun getað óskað eftir því þegar ég varð þess áskynja að hv. þm. Birkir Jón Jónsson vildi ræða um Íbúðalánasjóð að fara þá þegar á mælendaskrá eða óska eftir því við forseta að fá að ræða hið sama mál við hinn sama þingmann, þ.e. formann félags- og tryggingamálanefndar.