135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[12:11]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ágætu skýrslu og það frumkvæði að hafa umræðu hér um þennan mikilvæga málaflokk og vonandi verður þetta árviss viðburður í þingsölum.

Áður en ég kem að skýrslunni vil ég segja út af orðum sem féllu áðan að menn eiga kannski að fara gætilega í því að tala þannig um stjórnmálin og stjórnmálaflokkana að það sé til þess fallið að grafa undan tiltrú almennings á þeim og virðingu fyrir þeim störfum. Mér finnst ekkert að því, þó að það sé ekki mitt hlutverk að taka upp hanskann fyrir Samfylkinguna, að í Samfylkingunni sé fólk héðan og þaðan eða að það fólk vilji komast til valda. Ég get sagt það um aðra flokka að allir erum við héðan og þaðan og allir vilja komast til áhrifa og koma sínum málum fram. Vinstri grænir sýndu það eftir síðustu alþingiskosningar, þegar þeir skynjuðu að tækifærið til ríkisstjórnarmyndunar var að renna þeim úr greipum létu þeir þau boð út ganga að þeir væru tilbúnir til að semja meira en áður hafði verið talið um niðurstöðu í umhverfismálum. Mér finnst það bara eðlilegur hlutur og ekki þeim til lasts eða neinum öðrum að vilja komast til áhrifa. Til þess eru stjórnmálaflokkarnir og til þess erum við sem erum í stjórnmálum að reyna að komast til áhrifa, að koma okkar málum fram, en við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir að ekkert okkar hefur undir höndum hinn eina rétta sannleika. Stjórnmál eru miðlun hugmynda og miðlun skoðana og menn þurfa að ná niðurstöðu og samkomulagi um hlutina.

Ég vildi bara draga þetta fram svo hér stæði ekki eftir það sjónarmið sem hér féll. Vafalaust hefði mátt hugsa það betur, ég geri ekki neina sérstaka athugasemd við það sjónarmið en læt bara mín sjónarmið koma fram í þessum efnum því að mér finnst að við megum vara okkur á að gera lítið úr því sem við sjálf erum að gera því að það veikir tiltrú almennings á störfum okkar og stjórnmálunum og það er ekki gott. Það vegur miklu frekar að lýðræðinu sjálfu ef menn ganga langt í þessum efnum og ég er svo sem ekki að segja að það hafi verið í þessu tilviki.

Virðulegi forseti. Í þessari skýrslu er af mörgu að taka og hægt að taka mörg mál fyrir og ræða þau ítarlega en það verður að afmarka sig við fáein atriði. Það sem mér finnst kannski standa upp úr og vera aðalatriði í því sem ráðherra vill koma á framfæri er það að ná eigi að sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða og vinna eigi að því að skapa sátt um slíka hluti. Ég get alveg tekið undir það. Það er hlutverk stjórnmálamanna að ná samkomulagi um hlutina og ná sátt um þá og helst sem víðtækastri sátt. En í þessari áherslu, sem hefur verið mjög sterk í flokki ráðherrans, bæði fyrir kosningar og eftir, finnst mér felast skilaboð um að fyrri ákvörðunum hafi verið áfátt, að þær hafi verið teknar í mikilli ósátt eða teknar ákvarðanir sem hefði ekki átt að taka ef menn vildu gæta þess að sýna sátt. Ég held ekki. Það hefur vissulega ekki verið sátt um margar ákvarðanir í umhverfismálum, sérstaklega ekki margar ákvarðanir í virkjunarmálum. Það var engin sátt um þá ákvörðun að fara í Kárahnjúkavirkjun en yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar studdi það. Mig minnir að í öllum könnunum hafi tveir þriðju stutt þá framkvæmd og einn þriðji verið á móti. Það er alveg rétt að það er hægt að segja að það sé ekki sátt en það er yfirgnæfandi meiri hluti. Og ég get ekki fallist á að rangt hafi verið að ráðast í Kárahnjúkavirkjun með þessa niðurstöðu fyrir framan mig.

Ég veit ekki um neina meiri háttar virkjunarframkvæmd á seinni árum sem hægt er að segja um að hafi mætt yfirgnæfandi andstöðu landsmanna. Um margar þeirra sem ætlunin er að ráðast í er vitað að er ágreiningur og hægt er að segja að það sé ekki sátt um þær. Það er ekki sátt um að ráðast í að virkja í neðri hluta Þjórsár en ég held að yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna styðji það. Það er ekki víst að sátt sé um að fara í jarðhitasvæðin eða háhitasvæðin til að fá orku fyrir Helguvík eða einhverjar aðrar framkvæmdir. Örugglega er ekki sátt um það en ég hugsa að það sé yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því. Ég þekki að vísu ekki allar kannanir og man ekki eftir öllum sem til kunna að vera um einstakar hugmyndir um virkjanaframkvæmdir en það væri fróðlegt að fá það fram hvernig það liggur.

Ég held að almennt megi segja að það sem gert hefur verið á síðustu árum og áratugum hafi verið gert með góðum stuðningi landsmanna. Ég get ekki tekið undir það, ef það er meining manna með þessu tali, að menn hafi verið að gera rangt á hverjum tíma því að ég held að menn hafi ekki verið að gera rangt á þeim tíma. Ég held t.d. að bændur hafi ekki verið að gera rangt á sínum tíma þegar þeir grófu skurði og ræstu fram votlendi. Það var nauðsynlegt á þeim tíma til að bæta lífskjör landsmanna. Á sama hátt tel ég nauðsynlegt og rétta aðgerð að stíga skrefið til baka af því að við getum það og eigum færi á því.

Allir hlutir eru þannig að það er ekki ákvarðað í eitt skipti fyrir öll hvað er rétt í þeim efnum. Þetta er í fyrsta lagi matsatriði, þetta er byggt á viðhorfum fólks og viðhorfin breytast mikið á löngum tíma. Viðhorf þjóðarinnar hafa breyst mikið til umhverfismála á síðustu 20 árum, m.a. fyrir tilverknað þeirra sem hafa gengið mjög fram í þeim efnum og beitt sér fyrir því að ryðja braut nýjum hugmyndum um verndun svæða og annað slíkt. Það hefur bara verið góðs viti og menn hafa náð góðum árangri og breytt viðhorfum landsmanna jafnt og þétt í gegnum tíðina. Ég hugsa að við fengjum ekki sömu afstöðu til liðinna framkvæmda og var þá ef við mældum það í dag. Við þurfum að hafa í huga að þetta er breytilegur heimur og við getum ekki lagt á það mat eða sett það fram að eitthvað sé ákveðið og rétt í eitt skipti fyrir öll.

Við skulum taka sem dæmi þá hugmynd Landsvirkjunar um virkjun sem ég held að kölluð sé Bjallavirkjun. Ég veit svo sem ekki mikið um hana og hef ekki komið mér upp neinni skoðun á því máli, hvort það sé rétt eða rangt. Ég hef þó séð í gömlum gögnum að þarna var vatn í u.þ.b. 600 ár, Stóravatn. Talið er nokkuð víst að sú dæld sem á að stífla til að búa til lón eða vatn hafi áður verið stöðuvatn, Stórisjór, sem hafi horfið í Veiðivatnaeldum um 1480. Er það endilega svo rangt að gera aftur það sem einu sinni var? Ég vil að minnsta kosti á þessu stigi ekki segja nei, við eigum ekki að skoða þessa hluti. Mér finnst að alveg eins megi segja: Við skulum skoða það. Þetta kann að vera skynsamlegt og látum meta þetta. Látum gera umhverfismat á þessari framkvæmd þannig að við sjáum hvernig framkvæmdin er hugsuð og hvaða áhrif hún hefur og þá getur hver og einn lagt mat á það og myndað sér skoðun á því hvað honum finnst um þessa hugmynd. Ég skal ekki segja hvað mönnum kann að finnast um það þegar það liggur fyrir en mér finnst að menn eigi ekki að segja nei strax.

Virðulegi forseti. Ég tek undir margt í því sem kemur fram bæði í stjórnarsáttmálanum og í skýrslunni, eins og um verndun svæða við Þjórsárver og Langasjó. Það er afrakstur umhverfisverndarsinna gegnum árin sem hefur breytt viðhorfi mínu til þess. Kannski hafa fleiri breytt viðhorfi sínu til þessara mála gegnum árin og kannski er meiri hluti þjóðarinnar sömu skoðunar.

Ég vil segja um lýðræði og fræðslu sem er einn af fjórum þáttum sem dregnir eru fram í þessari skýrslu að ég tel mjög mikilvægt að hafa umgjörðina um þessi mál þannig að þess sé gætt að fólk geti komið að málum, geti fengið góðar upplýsingar um hugmyndir sem á döfinni eru og komið sínum sjónarmiðum að, það er mjög mikilvægt, en mér finnst ákvarðanaferlið vera orðið afskaplega seinvirkt. Ég tel að fara þurfi í gegnum þennan þátt málsins með það í huga að stytta allan þennan tíma, ekki til að útiloka eða takmarka möguleika almennings til að koma sínum sjónarmiðum að heldur til að flýta því að niðurstaða fáist fyrr.

Það er algjörlega óásættanlegt eins og Vestfirðingar hafa þurft að búa við að fáeinir menn sem sætta sig ekki við niðurstöður ráðherra geti tafið vegaframkvæmdir árum saman og þúsundir manna líði fyrir það. Það er bara algjörlega óásættanlegt. Fólki hefur verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum, búið er að taka tillit til þeirra og komin er niðurstaða en menn hætta ekki. Og meira að segja samtök á landsvísu taka sér fyrir hendur að koma í veg fyrir áframhaldandi áform um vegagerð þarna. Hvað á þetta að þýða? Mér finnst allt of langt gengið í þessum efnum þegar menn fara alla þessa leið til að koma í veg fyrir að lögmæt áform nái fram að ganga.

Það er nefnilega mikilvægur hluti af lýðræðinu að menn sætti sig við niðurstöðu eða uni því að hún hafi verið tekin (Gripið fram í: Eða leiti réttar síns.) Eða leiti réttar síns? Hvaða rétt á Landvernd í því að tefja vegagerð á Vestfjörðum árum saman? Er það einhver réttur þeirra? (Gripið fram í: Má ekki láta reyna á …?) Það er búið að gefa öllum kost á að koma sjónarmiðum sínum að og taka tillit til þeirra. Það er búið að taka langan tíma í þetta ferli og samt, af því að mönnum líkar ekki niðurstaðan, á að leita allra lagakróka til að koma í veg fyrir framkvæmdir. Ég er að gera athugasemdir við það. (Gripið fram í.) Mér finnst vera takmörk fyrir því hvað menn eiga að geta tafið fyrir hlutunum lengi með þessum hætti. Vegna þess að þeir sem tala um sátt eru kannski sumir hverjir bara að tala um sátt um sína skoðun og ef hún nær ekki fram að ganga er leitað allra leiða til að koma í veg fyrir að niðurstaðan nái fram að ganga. Um það getur aldrei orðið sátt, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, það er ekki lýðræði.

Við verðum að muna eftir því að lýðræði er það þegar fólk býr saman og reynir að una hvert öðru þeirri niðurstöðu sem leikreglur hafa leitt til. Það verður ekkert lýðræði eða sátt um það að fáeinir einstaklingar taki sér það vald og rjúfi sig út úr og komi í veg fyrir að meirihlutavilji nái fram að ganga. Menn verða að gæta að því. Það leiðir bara til þess að menn breyta lögum, breyta ferli mála til að tryggja það að lögmæt niðurstaða nái fram að ganga og það er eðlilegt.

Virðulegi forseti. Af því að svo lítill tími er eftir langar mig að geta þess að ég legg mikla áherslu á að Alþingi og stjórnmálaflokkar efli umhverfismálin og sérstaklega umhverfisráðuneytið. Það er mjög mikilvægt í nútímaþjóðfélagi að gefa því ráðuneyti meiri tök á því sem lýtur að umhverfi. Ég tala mjög fyrir því að til umhverfisráðuneytisins verði flutt verkefni sem í dag eru hjá atvinnuvegaráðuneytum, bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytum. Hluti af þeim hefur þegar verið fluttur til umhverfisráðuneytisins í sambandi við stjórnkerfisbreytingarnar á síðasta ári og það er gott en meira þarf að gera sem lýtur að rannsóknum og nýtingu auðlinda, sérstaklega hafsins. Það er algjörlega nauðsynlegt og knýjandi þörf á að losa hafsvæðið og málefni þess undan krumlum LÍÚ og þeirrar klíku sem ræður ríkjum í Hafrannsóknastofnun og hefur mikil áhrif á sjávarútvegsráðuneytið. Það er algjörlega nauðsynlegt. Við sjáum hvernig nýting hafsins er og að þar er að mörgu að hyggja sem ekki er hugað að í dag vegna þess að hagsmunasamtökin hafa of sterka stöðu. Notkun botnvörpu hefur mikil áhrif á lífríki hafsins, bæði botninn sjálfan og lífríkið þar fyrir ofan, og það að nýta þessi veiðarfæri í nánast óheftum mæli er ekki rétt. Menn eiga að fara að huga að því að stýra nýtingu veiðarfæra til að tryggja að lífríkið í hafinu spillist ekki því að við viljum væntanlega hafa sjálfbæra þróun þar eins og fyrir ofan yfirborð hafsins. Við komumst ekkert áfram í þessum efnum meðan þessi mál eru vistuð undir handarjaðri hagsmunaaðila. Fleira væri ástæða til að nefna varðandi verndun og nýtingu hafsins en ég læt staðar numið enda tíma mínum lokið. Ég ítreka ánægju mína með að þessi mál skuli vera tekin hér til umræðu á svona breiðum grundvelli, á grundvelli skýrslu ríkisstjórnarinnar.