135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[13:51]
Hlusta

Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir skýrsluna og að mörgu leyti áhugaverða umræðu. Hún hefur líka farið vítt og breitt og umræðan sýnir hve málaflokkurinn er í raun og veru stór.

Skýrslan er mikið til sögulegt ágrip. Farið er yfir sögu umhverfismála og sögu umhverfisráðuneytisins frá því það var stofnað. Það var dálítið áhugavert og sýnir í raun og veru hvers lags málaflokkur það er sem við ræðum um. Mig rekur nú minni til þess að það hafi ekki verið sérstaklega víðtækur skilningur í samfélaginu þegar hæstv. þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp 1990 um að stofna þetta ráðuneyti, umhverfisráðuneytið. Margir töldu það vera einhver klækjastjórnmál. Það ætti að reyna að koma inn ráðuneyti í ríkisstjórnina til þess að Borgaraflokkurinn gæti komið þar að ríkisstjórnarsamstarfi og eitthvað svoleiðis. Það var nú allur skilningurinn.

En það hefur auðvitað sýnt sig síðar að það var mikið framfaraskref og (Gripið fram í: Það var málþóf. ) Já, það var málþóf og það var líklega eitt það síðasta sem Framsóknarflokkurinn gerði til framfara í umhverfismálum og ber að þakka honum fyrir það. [Hlátur í þingsal.]

Hvernig er þessi málaflokkur? Honum vindur fram. Við verðum bara að horfast í augu við það og þykir jafnvel eðlilegt að þeir sem voru einhverju sinni með virkjunum, með miklum stóriðjuframkvæmdum, eru á móti þeim núna. Þegar umræður um Kárahnjúka hefðu átt að standa sem hæst fyrir kosningar 2003 þegar framkvæmdirnar voru að byrja var það ekkert kosningamál. Síðan verður það kosningamál þegar framkvæmdirnar eru svo til búnar. Þessi málaflokkur er því dálítið skrýtinn. Þegar hugmyndir koma upp um virkjun í neðanverðri Þjórsá taka flestir undir það til að byrja með en svo verða allir á móti.

Málaflokkurinn er þannig svolítið margbreytilegur. Það er erfitt fyrir marga að vera samkvæmir sjálfum sér einfaldlega vegna þess að menn hafa ekki allar upplýsingar uppi á borðum. Menn hafa einfaldlega ekki nálgast málið þannig að þær liggi allar fyrir. Það verður að horfast í augu við það.

Það er annað sem gerir umhverfisverndarsinnum — og ég tel mig til umhverfisverndarsinna — svolítið erfitt fyrir og kannski sem betur fer vegna þess að það eru jú lög og reglur í landinu. Það eru hins vegar ákvarðanir sem búið er að taka áður sem við verðum að standa við einfaldlega vegna þess að framkvæmdaraðilar og verktakar hafa ákveðinn rétt.

Hér er ég búinn að nefna tvær ástæður þess að umhverfisverndarsinnar verða að horfast í augu við að þetta er dálítið stórt olíuskip sem verið er að stýra — svo að ég leyfi mér að nota líkingu sem ekki er viðeigandi — en vonandi ekki inn í Arnarfjörð. Þetta gerist. Við verðum einfaldlega að vera þolinmóð.

Annað sem torveldar kannski að framfarirnar geti verið jafn hraðar og við viljum er einfaldlega að almenningsálitið er ekki endilega andsnúið virkjunum. Í umræðunni um Kárahnjúka skiptist þjóðin örugglega í tvo jafnstóra hópa. Þetta leiðir því allt til þess að við verðum að sætta okkur við að framfaraskrefin verða ekki jafnstór.

Ég ætla að nota niðurlag þessarar stuttu ræðu til að sýna fram á það að við erum heldur betur á réttri leið. Vegna hvers samdi Samfylkingin og kom sér saman um fagra Ísland? Það er vegna þess að Samfylkingin skiptist nákvæmlega í tvo hópa, þeirra sem eru með því að virkja mikið og þeirra sem vilja vernda. Sú sátt sem náðist í Samfylkingunni, þeim stóra og mikla flokki þar sem rúmast margar skoðanir, er auðvitað vísir að því að það er hægt að ná sátt í samfélaginu. Grundvallaratriðin í stefnunni um fagra Ísland eru í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er stór sigur fyrir umhverfisvernd og það er vísir að því að hægt er að ná sátt um þann málaflokk í framtíðinni og um alla ókomna framtíð. Þar er auðvitað vinnan við rammaáætlun algert grundvallaratriði. Það eru lokaorðin. Við erum á réttri leið og það er ekki síst núverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að þakka. (Forseti hringir.)