135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:07]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Maður kemur hérna upp innspíreraður eftir síðustu ræðu og ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað hefði maður viljað hafa lengri tíma til að ræða um þetta mikilvæga mál. Ég hefði líka viljað hlusta lengur á hv. þingmann vegna þess að mér fannst hún koma inn á mjög margt afar áhugavert og mikilvægt sem við höfum kannski ekki verið að fjalla um hér og það er þessi heildarhugsun í alþjóðlegu samhengi.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum gríðarlega lánsöm þjóð vegna þess að við eigum mikið af auðlindum sem geta gefið okkur endurnýjanlega orku, alveg gríðarlega mikið. Til dæmis finnst mér alltaf svolítið merkileg sú tala að innan Evrópusambandsins hefur verið mótuð sú stefna að fyrir árið 2020, ef ég man rétt, ætla menn að verða komnir upp í 20% af allri orkunýtingu, að 20% af því eigi að verða endurnýjanlegir orkugjafar. Í dag á Íslandi er þessi tala 80%. Þið sjáið því að við stöndum gríðarlega vel að vígi og eins og komið var inn á hér áðan er umræðan um kjarnorku að verða æ háværari um allan heim og það virðist manni vera framtíðarmúsíkin hjá mörgum okkar nágrannaríkjum. Þetta höfum við ekki þurft að ræða hingað til og munum ekki þurfa að gera það í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að við erum gríðarlega lánsöm þjóð.

Virðulegi forseti. Þess vegna hafa mér þótt afar slæmar, og okkur í Samfylkingunni og þessari ríkisstjórn, þær deilur sem hafa risið um nýtingu þessara auðlinda. Hvers vegna hafa þessar deilur ávallt risið? Það er vegna þess að við höfum verið með þær í ákvarðanatöku í tilviljanakenndu formi, þ.e. alla heildarsýn hefur skort.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að við þyrftum framsýna umhverfisstefnu. Ég er alveg hjartanlega sammála því og það er sú framsýna umhverfisstefna sem birtist hér á heilli síðu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, er að birtast í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra sem hér er verið að ræða og er að birtast í allri ákvarðanatöku innan umhverfisráðuneytisins og stefnumörkun. Aldrei fyrr hefur nefnilega verið jafnsterk áhersla á umhverfismál í stjórnarsáttmála, aldrei fyrr, eins og nú er, og það má taka það fram að þetta er lengsti kaflinn af öllum köflunum í þessum stjórnarsáttmála. Hann fjallar einmitt um umhverfismálin. Það hefur aldrei fyrr verið tekið jafnafgerandi á umhverfismálum og nú er gert og jafnskynsamlega.

Ekki þarf að tíunda að í stjórnarsáttmálanum eru strax tekin frá, til hliðar, mjög mikilvæg svæði og vernduð. Það á ekki að fara inn á óröskuð svæði og ekki verða gefin út nein ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrr en heildarmyndin liggur fyrir í rammamáætlunum um vernd og nýtingu orkuauðlinda. Síðan er lykilatriði, virðulegi forseti, að þetta verður síðan lagt fyrir þingið og það verður hér rætt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, framsögumaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hélt að hún kæmi hér með einhver ný sannindi um að þetta yrði aldrei tilbúið fyrr en á vordögum 2010. Hún talaði af miklu yfirlæti um að menn þyrftu að segja það upphátt. Auðvitað vitum við það. Það er vegna þess að vinnu nefndarinnar verður lokið í lok árs 2009. Síðan á þingið eftir að fjalla um þessa rammaáætlun þannig að þetta ferli hefur alltaf legið fyrir. Þetta er í fyrsta skipti í sögu þessa þings þar sem raunveruleg bindandi ákvörðun um forgangsröðun á náttúruauðlindum okkar mun fara fram, í fyrsta skipti í sögu þessa þings. Ef þetta er ekki framsækin umhverfisstefna þá veit ég ekki hvað, virðulegi forseti, og þetta er nýmæli.

Ég verð líka, virðulegi forseti, aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði líka um skiptingu ráðuneyta hjá okkur í ríkisstjórninni og verkefna þar sem hún talaði eins og iðnaðarráðherrann væri einhver sérstakur talsmaður stóriðju annars vegar og umhverfisráðherrann sérstakur talsmaður umhverfisins hins vegar. Ég hef ekki séð þetta svona svart/hvítt. Hún sagði að á borði iðnaðarráðherra væri verið að kasta náttúruperlum á altari stóriðjustefnunnar. Ég spyr: Var hæstv. iðnaðarráðherra að gera það þegar hann hafnaði í takt við stjórnarsáttmála öllum umsóknum um rannsóknarleyfi inn á óröskuð svæði þegar hann tók við í fyrrasumar? Nei, virðulegi forseti. Það er nefnilega samhljómur í þessari ríkisstjórn. Það er samhljómur um að hér eigi að reka umhverfisstefnu sem ber virðingu fyrir náttúrunni og er ekki háð duttlungum stjórnmálamanna eða stjórnenda í sveitarfélögum hverju sinni og ber virðingu fyrir samfélaginu og fólkinu sem þar býr (Forseti hringir.) með því að skapa hér opið gagnsætt kerfi og heildarsýn. Við erum nefnilega á réttri leið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og við erum að skapa sátt milli verndar og nýtingar. Það birtist best í því að við erum á réttri leið þegar við erum gagnrýnd (Forseti hringir.) bæði af öfganýtingarsinnunum og öfgaverndunarsinnunum í sömu umræðu eins og hér er gert.