135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:18]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég ætla að nýta tíma minn í þessari umræðu í tvennt um leið og ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu og að leggja hana fram hér og fyrir umræðuna sem hefur verið hér í dag. Ég held að skýrslan sýni það umfram annað hve umhverfismálin vega orðið þungt í þjóðfélaginu og hve þau eru samofin öllu okkar lífi.

Það sem mig langar til að gera að umtalsefni í fyrsta lagi er verndun hafsins. Ekki þarf að orðlengja það hve lífríki hafsins er mikilvægt okkur Íslendingum. Sjávarútvegur er og hefur verið grundvöllur íslensks efnahagslífs. Þótt við höfum í seinni tíð rennt fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf í landinu er sjávarútvegurinn enn þá og mun vonandi alltaf verða burðarás í efnahag þjóðarinnar. Ekki síst þess vegna höfum við Íslendingar gert okkur grein fyrir mikilvægi þess að vel sé gengið um hafið. Ég býst við að einmitt á þessu sviði sé umræða okkar um umhverfismál mjög langt á veg komin. Við höfum nýtt afl okkar á alþjóðavettvangi í áratugi til að stuðla að því að þjóðir gangi vel um hafið og bent á afleiðingar mengunar á lífríki þess.

Nú blasa við nýjar ógnanir í hafinu kringum Ísland. Með aukinni olíuvinnslu Rússa á norðurslóðum og flutningi olíu milli Rússlands og Bandaríkjanna skapast ógnanir á norðaustursiglingaleiðinni sem við verðum að mæta. Í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra kemur fram að stjórnvöld hafi þegar gripið til ýmissa aðgerða vegna þessa, m.a. með því að efla siglingar opinberra aðila meðfram strandlengju Íslands.

Ég hvet stjórnvöld af þessu tilefni til að halda vöku sinni gagnvart siglingu olíuskipa og efnaflutningaskipa á sjónum í kringum landið og í því sambandi er ástæða til þess að taka undir áform um að reyna að fá fram alþjóðlegar reglur sem miði að því að þessar siglingaleiðir færist fjær ströndum landsins. Þarna tel ég að samstarf milli umhverfisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis á sviði öryggismála skipti verulega miklu máli.

Hitt atriðið sem mig langar að gera að umtalsefni eru samgöngur bæði á Íslandi og til og frá landinu. Það liggur fyrir að við Íslendingar stólum mikið á olíu til þess að knýja fiskiskipaflotann og bílana okkar og ekki síst flugvélar til að komast frá landinu. Flug og skipasiglingar eru lífæð okkar Íslendinga í samskiptum við heiminn. Það er bráðnauðsynlegt að við leitum allra mögulegra leiða til að draga úr útblæstri í samgöngum. Í því efni þurfum við að treysta hvað mest á tækniframfarir sem hafa sem betur fer orðið töluverðar en það þarf miklu meira til. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað við getum gert sjálf til að draga úr þessum útblæstri.

Það er hvað erfiðast að breyta hegðun okkar sjálfra og fá okkur t.d. til að draga úr bílanotkun en um leið og við vinnum í því er hægt að horfa í fleiri áttir. Hjá fiskiskipaflota okkar, sem verður væntanlega áfram knúinn af olíu, er hægt að hugsa sér fleiri leiðir, t.d. í notkun ljósavéla í landi og slíkt sem ég veit að hefur lengi verið til umræðu í stjórnkerfinu. Eins er hægt að halda áfram við það verkefni, sem var hafið fyrir löngu síðan og hefur stöðugt verið í gangi, að nýta rafmagn betur, t.d. á sviði iðnaðar og ekki síst á sviði fiskbræðslu og slíkra hluta. Skoðun mín er eindregið sú að við eigum að reyna að nota rafmagnið og koma því alls staðar við í stað olíu þar sem þess er nokkur kostur. Í því efni þarf ekki síst að horfa til aukinnar flutningsgetu í raforkukerfinu. Ég vil hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að beita sér fyrir þessu.

Að lokum vil ég nefna flugið til og frá Íslandi. Enginn velkist í vafa um hve mikilvægt það er og hve áhrif eldsneytishækkana geta skipt miklu fyrir afkomu þess og einnig kostnað fyrir landsmenn. Nú erum við að innleiða svokallaða viðskiptakerfistilskipun ESB um losunarheimildir. Það liggur fyrir að flugið mun fara þar undir árið 2011. Þar eru hagsmunir eyþjóðarinnar gríðarlega miklir. Ég veit að Ísland hefur haldið þessum hagsmunum fram í viðræðum sínum á alþjóðavettvangi en þarna þurfum við að halda vöku okkar sérstaklega og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra að gefa þessu máli sérstakan gaum.