135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:45]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn vil ég byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um málaflokkinn. Umhverfismál eru að verða æ fyrirferðarmeiri í stjórnmálaumræðu samtímans og er því nauðsynlegt að skýrsla sem þessi sé flutt á hinu háa Alþingi eins og hér er nú gert. Það gefur hv. þingmönnum yfirsýn yfir þau mál sem unnið er að í ráðuneytinu og tel ég það afar jákvætt.

Það mætti staldra við og fjalla um marga áhugaverða þætti skýrslunnar en flest málin sem fjallað er um eru mjög stór og mikilvæg, ekki eingöngu fyrir okkur Íslendinga heldur ekki síður út frá hnattrænum sjónarmiðum. Vernd hafsins, að vernda hafið umhverfis Ísland gegn mengun, er mjög mikilvægt mál, mál sem skiptir eyríki eins og Ísland miklu máli, við höfum lífsviðurværið af því sem úr sjónum kemur. Einnig bendir margt til þess að umferð skipa sem flytja olíu fari vaxandi á næstu árum og er því afar brýnt að umræða um mengunarhættu á hafi, m.a. vegna olíuflutninga, sé sífellt í umræðunni og ekki síður viðbrögð við slíkri vá.

Í skýrslunni er greinargóður kafli um Vatnajökulsþjóðgarð og áætlanir um uppbyggingu hans og þjónustu honum tengda. Í skýrslunni segir að stofnun þjóðgarðsins sé eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafi tekist á hendur í þessum hluta landsins. Hægt er að gera ráð fyrir að þjóðgarðurinn skjóti styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á þeim svæðum sem að honum liggja. Gera má ráð fyrir að þeim ferðamönnum sem sækja þjóðgarðinn heim fjölgi eftir því sem umsvif þjóðgarðsins verði meiri, innviðir styrktir og gestastofum fjölgað. Vatnajökulsþjóðgarður mun gefa ferðaþjónustuaðilum í sveitarfélögum nærri þjóðgarðinum aukna möguleika í þjónustu við ferðamenn. Sóknarfærin sem verða til á næstu árum vegna þjóðgarðsins verða af ýmsum toga. Með víðsýni og frjórri hugsun heimamanna verður til í tengslum við þjóðgarðinn fjöldi nýrra atvinnutækifæra sem þarf að nýta sem best.

Í kaflanum um sorphirðu og endurvinnslu úrgangs er fjallað um áherslur hæstv. umhverfisráðherra frá árinu 2007 þar sem lögð er áhersla á að neytendum sé auðveldað að stjórna neyslu sinni í samræmi við sjónarmið sjálfbærrar þróunar og þar með að halda myndun úrgangs í lágmarki. Einnig segir að draga þurfi úr sorpi frá heimilum og fyrirtækjum, bæta flokkun og auka endurnýtingu. Jafnframt er talað um að ráðuneytið vilji leita leiða að þessu markmiði í samvinnu við sveitarfélög og hagsmunaaðila.

Ég tek undir að í þessum málum þurfum við að taka til hendinni. Maður heyrir gjarnan að of tímafrekt sé að standa í flokkun, best sé að henda öllu í eina ruslafötu og þurfa ekki að hafa frekari áhyggjur af málinu. Einmitt vegna skoðana af þessu tagi spyr maður sig hvernig best sé að breyta hugsanagangi fólks um sjálfbæra þróun. Í mörgum sveitarfélögum hafa leik- og grunnskólar markað sér ákveðna stefnu í umhverfismálum. Ég þekki dæmi þess í mínu sveitarfélagi að leikskóli hefur unnið með skjólstæðingum sínum að umhverfismálum í á annan áratug. Verkefnið hófst með vettvangskönnunum um sveitarfélagið þar sem umhverfið var tekið til skoðunar. Því verkefni lauk með því að leikskólinn gaf út bók sem hefur verið notuð sem ítarefni í grenndarfræðslu við Háskólann á Akureyri. Þessi sami leikskóli ásamt einum grunnskóla hefur hlotið grænfána Landverndar. Eins og hv. þingmenn vita þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að hljóta slíka virðingu.

Ég sé, hæstv. forseti, að ég er að lenda í tímaþröng eins og margir aðrir hv. þingmenn sem áður hafa talað og verð að reyna að stytta ræðu mína. Ég vil því hvetja hæstv. umhverfisráðherra til þess að taka höndum saman með sveitarfélögunum og marka stefnu sveitarfélaga og ríkisins (Forseti hringir.) varðandi heildstæða stefnu grunn-, leik- og framhaldsskóla í umhverfismálum.