135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti samgöngunefndar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum. Að lokinni 2. umr. óskaði hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson eftir því að nefndin yrði kölluð aftur til fundar og farið yrði yfir ákveðna þætti sem ég mun gera grein fyrir hér á eftir. Af því til tilefni fengum við Karl Alvarsson, Ólaf Pál Vignisson og Maríu Rún Bjarnadóttur frá samgönguráðuneytinu á okkar fund vegna NMT- og GSM-kerfa landsins.

Leyfi til reksturs NMT-kerfisins mun falla niður nk. áramót, m.a. vegna úrelts tæknibúnaðar. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson óskaði eftir að farið væri yfir þetta á fundum nefndarinnar og nefndin fullvissuð um að kerfið yrði ekki lagt niður nema annað tæki við sem væri a.m.k. jafnöruggt. Með tilliti til þeirra upplýsinga sem við í samgöngunefnd fengum á fundinum teljum við ekki forsendur til þess að leggja til breytingar á frumvarpinu í þá veru að framlengja leyfi til reksturs á NMT-kerfinu. Aftur á móti bókum við að við teljum nauðsynlegt að fylgjast mjög náið með framkvæmd og uppbyggingu GSM-kerfisins og leggjum áherslu á að komi fram vankantar við niðurlagningu kerfisins verði brugðist við, sérstaklega varðandi öryggisþáttinn. Um þetta var alger samstaða í nefndinni.

Með þessu framhaldsnefndaráliti leggjum við til, öll sem eitt, að frumvarpið verði samþykkt.