135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:21]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir síðustu orð hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, framsögumanns og formanns viðskiptanefndar, um að markmiðið með þessari lagasetningu er að eyða óvissu og ná til sem flestra aðila hvað varðar eðlilegar og sanngjarnar bætur vegna hinna miklu landskjálfta sem urðu á Suðurlandi 29. maí sl.

Ég ítreka að ég stend að þessu nefndaráliti eins og komið hefur fram, enda hafa verið felld brott úr upphaflega frumvarpinu ónauðsynleg ákvæði um reglugerðarheimild til ráðherra sem var umdeild og ekki talin nauðsynleg og hefur verið felld brott. Þetta snýst fyrst og fremst um það viðfangsefni sem ætlunin var, þ.e. um bætur vegna landskjálftana á Suðurlandi. Eins ítreka ég líka að orð hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar um nauðsyn til að setja bráðabirgðalögin læt ég liggja milli hluta. Ég tel að í sjálfu sér hefði verið hægt að kalla saman Alþingi og afgreiða lögin. Enda tekur nefndarálitið ekki sem slíkt á því, það tekur fyrst og fremst á því efnislega að brugðist sé við með þeim hætti sem þar er tilgreint og að hluta til var lagt til í bráðabirgðalögunum og ég ítreka líka stuðning okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þann tilgang málsins.