135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fjalla meira um lögmæti bráðabirgðalagasetningarinnar. Aðalatriðið nú er að bætur, uppbygging og endurbætur á því tjóni sem varð í Suðurlandsskjálftanum verði tryggt og að byggingar og annað tjón sem fólk hefur orðið fyrir verði bætt og komist sem allra fyrst í samt lag. Og sömuleiðis að fólk sem hefur orðið fyrir bæði eignalegum og andlegum áföllum af völdum Suðurlandsskjálftans í vor fái að því leyti sem samfélagið getur stuðning um bætur og endurreisn og það sé til staðar. Meginmarkmið þessarar lagasetningar er að óvissu um það sem gat verið óvissa um verði eytt. Ég óska þess svo eindregið að við þurfum ekki að upplifa margar slíkar stundir og marga slíka atburði en þegar þeir verða að þá stöndum við saman sem einn maður um að bæta tjón bæði andleg og veraldleg eftir því sem tök eru á. Með bestu óskum til þeirra Sunnlendinga sem lentu í þessum áföllum og ég vona að endurreisnarstarfið gangi vel.