135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður veit það af því að ég hef sagt honum það tvisvar sinnum frekar en einu sinni að árið 2003 gerði ég grein fyrir afstöðu minni til bráðabirgðalaga og lagðist gegn þeim. Ég gerði það opinberlega í blaðagrein og opinberlega í þingræðu. Því er ekki hægt að bera mér það á brýn að ég hafi skipt um skoðun í þessu máli eftir því hvort ég var stjórnarliði eða ekki. Afstaðan lá fyrir, ég gagnrýndi mína eigin forustu opinberlega oftar en einu sinni fyrir það að hafa sett bráðabirgðalög.

Það sem ég gagnrýni er að hér eru gefnar forsendur í bráðabirgðalögunum fyrir því að beita bráðabirgðalagavaldinu og breyta gildandi lögum, breyta tryggingaskilmálum eftir á. Það er hlutur sem ég tel að menn eigi ekki að gera. Ég bendi á Alþingi sjálft árið 1995 sem hafnaði stjórnarfrumvarpi um að breyta tryggingaskilmálum eftir á einróma. (Gripið fram í.)Hér er sagt að brýna nauðsyn hafi borið til að breyta skilmálunum vegna þess að menn hafi orðið fyrir svo miklu tjóni. Samt er engum skilmálum breytt þar sem tjónið var mest. Engum skilmálum er breytt vegna tjóna á fasteignum, engum. Engum skilmálum er breytt vegna tjóna á innbúi þar sem það var 1.700 þús. kr. eða meira. Hvernig getur hv. þingmaður horft framan í þjóðina og haldið því fram að þetta hafi verið neyðarástand? Ef svo var hvers vegna var skilmálunum þá ekki breytt þar sem um var að ræða eitthvert umtalsvert tjón?